Fjöldi kaup­hallar­sjóða (e. ETF) í Bandaríkjunum hefur nú farið fram úr fjölda skráðra hluta­bréfa, tíma­mót sem endur­spegla gríðar­legan vöxt í þessari tegund fjár­festingar­leiða.

Sam­kvæmt gögnum frá Morningstar, sem Financial Times greinir frá, eru nú skráðir 4.370 kaup­hallar­sjóðir á bandarískum mörkuðum á móti 4.172 hluta­bréfum.

Sam­tals er um að ræða um 12 billjónir bandaríkja­dala í stýrðum eignum en sér­fræðingar vara við að of­gnótt val­kosta geti orðið fjár­festum hættu­leg ef þeir hafa ekki burði til að meta áhættu og kostnað.

Kaup­hallar­sjóðir hafa á undan­förnum ára­tugum verið kynntir sem hag­kvæmur og skil­virkur kostur fyrir fjár­festa sem vilja á ein­faldan hátt kaupa heila körfu af hluta­bréfum eða öðrum verðbréfum.

Frá fyrstu sjóðunum sem fylgdu vísitölum eins og S&P 500 hafa val­kostirnir stóraukist og nú er hægt að velja sjóði sem fylgja nánast hvaða fjár­festingar­stefnu sem er: allt frá gervi­greind og sjálf­bærri orku til áhugamála á borð við gælu­dýra­vörur eða jafn­vel kanna­bis.

Fyrir áhættusæknari fjár­festa eru einnig í boði sér­hæfðir sjóðir sem bjóða upp á tvö- eða þre­falt vægi ein­stakra hluta­bréfa, á meðan hefðbundnir fjár­festar geta valið á milli fjölda sam­bæri­legra sjóða sem fylgja sömu vísitölum en með mis­munandi kostnaði og fjár­festinga­stefnu.

Þessi sprenging í fram­boði hefur þó sína ókosti.

Sér­fræðingar eins og Ben John­son hjá Morningstar vara við því sem hann kallar „val­kostaþreytu“ en það er þegar fjár­festar standi frammi fyrir svo mörgum val­mögu­leikum að það geti orðið yfir­þyrmandi að meta muninn á milli sjóða

„Það getur verið fjöldi sjóða sem segjast fylgja sömu stefnu en að­ferðin við fram­kvæmdina er ólík og það hefur áhrif á bæði árangur og kostnað,“ segir John­son.

Þá er einnig bent á að flóknari sjóðir beri oft hærri rekstrar­kostnað. Þrátt fyrir að ETF-sjóðir hafi al­mennt verið taldir ódýrari en hefðbundnir fjár­festingar­sjóðir sé aukin sér­hæfing og fjölgun sjóða sí­fellt lík­legri til að þjóna hags­munum út­gef­enda fremur en fjár­festanna sjálfra.

Áhættan felst ekki aðeins í kostnaði heldur einnig í þeirri stað­reynd að margir sjóðir standast ekki tímans tönn.

Þegar sjóðir eru lagðir niður fá fjár­festar reyndar endur­greitt fé sitt, en þurfa þá annaðhvort að selja fyrir lokun eða bíða eftir endan­legri greiðslu – sem getur leitt til óvæntra skatta­skuld­bindinga.

Samkvæmt FT er lykillinn að fjár­festar vinni heima­vinnuna sína áður en þeir fjár­festa.

Nauð­syn­legt sé að skilja hvaða eignum sjóðurinn hyggist fylgja, hvernig hann fram­kvæmir fjár­festingar­stefnuna, hvenær hann jafn­vægis­stillir eigna­safnið og hvaða kostnaður fylgir þeim.

„Aukin fjöl­breytni er ekki alltaf jákvæð ef hún gerir fjár­festingar­um­hverfið flóknara og eykur falda áhættu,“ segir John­son.

Kaup­hallar­sjóðir hafa vissu­lega gjör­breytt að­gengi al­mennra fjár­festa að mörkuðum og lækkað kostnað við margs konar fjár­festingar­leiðir.

En þegar val­kostirnir verða fleiri en undir­liggjandi hluta­bréfin sjálf, þá er ljóst að ein­fald­leikinn sem gerði sjóðina vinsæla er víða horfinn – og að ábyrgðin á réttri ákvörðun hvílir nú þyngra á herðum fjár­festanna sjálfra.