Fjöldi kauphallarsjóða (e. ETF) í Bandaríkjunum hefur nú farið fram úr fjölda skráðra hlutabréfa, tímamót sem endurspegla gríðarlegan vöxt í þessari tegund fjárfestingarleiða.
Samkvæmt gögnum frá Morningstar, sem Financial Times greinir frá, eru nú skráðir 4.370 kauphallarsjóðir á bandarískum mörkuðum á móti 4.172 hlutabréfum.
Samtals er um að ræða um 12 billjónir bandaríkjadala í stýrðum eignum en sérfræðingar vara við að ofgnótt valkosta geti orðið fjárfestum hættuleg ef þeir hafa ekki burði til að meta áhættu og kostnað.
Kauphallarsjóðir hafa á undanförnum áratugum verið kynntir sem hagkvæmur og skilvirkur kostur fyrir fjárfesta sem vilja á einfaldan hátt kaupa heila körfu af hlutabréfum eða öðrum verðbréfum.
Frá fyrstu sjóðunum sem fylgdu vísitölum eins og S&P 500 hafa valkostirnir stóraukist og nú er hægt að velja sjóði sem fylgja nánast hvaða fjárfestingarstefnu sem er: allt frá gervigreind og sjálfbærri orku til áhugamála á borð við gæludýravörur eða jafnvel kannabis.
Fyrir áhættusæknari fjárfesta eru einnig í boði sérhæfðir sjóðir sem bjóða upp á tvö- eða þrefalt vægi einstakra hlutabréfa, á meðan hefðbundnir fjárfestar geta valið á milli fjölda sambærilegra sjóða sem fylgja sömu vísitölum en með mismunandi kostnaði og fjárfestingastefnu.
Þessi sprenging í framboði hefur þó sína ókosti.
Sérfræðingar eins og Ben Johnson hjá Morningstar vara við því sem hann kallar „valkostaþreytu“ en það er þegar fjárfestar standi frammi fyrir svo mörgum valmöguleikum að það geti orðið yfirþyrmandi að meta muninn á milli sjóða
„Það getur verið fjöldi sjóða sem segjast fylgja sömu stefnu en aðferðin við framkvæmdina er ólík og það hefur áhrif á bæði árangur og kostnað,“ segir Johnson.
Þá er einnig bent á að flóknari sjóðir beri oft hærri rekstrarkostnað. Þrátt fyrir að ETF-sjóðir hafi almennt verið taldir ódýrari en hefðbundnir fjárfestingarsjóðir sé aukin sérhæfing og fjölgun sjóða sífellt líklegri til að þjóna hagsmunum útgefenda fremur en fjárfestanna sjálfra.
Áhættan felst ekki aðeins í kostnaði heldur einnig í þeirri staðreynd að margir sjóðir standast ekki tímans tönn.
Þegar sjóðir eru lagðir niður fá fjárfestar reyndar endurgreitt fé sitt, en þurfa þá annaðhvort að selja fyrir lokun eða bíða eftir endanlegri greiðslu – sem getur leitt til óvæntra skattaskuldbindinga.
Samkvæmt FT er lykillinn að fjárfestar vinni heimavinnuna sína áður en þeir fjárfesta.
Nauðsynlegt sé að skilja hvaða eignum sjóðurinn hyggist fylgja, hvernig hann framkvæmir fjárfestingarstefnuna, hvenær hann jafnvægisstillir eignasafnið og hvaða kostnaður fylgir þeim.
„Aukin fjölbreytni er ekki alltaf jákvæð ef hún gerir fjárfestingarumhverfið flóknara og eykur falda áhættu,“ segir Johnson.
Kauphallarsjóðir hafa vissulega gjörbreytt aðgengi almennra fjárfesta að mörkuðum og lækkað kostnað við margs konar fjárfestingarleiðir.
En þegar valkostirnir verða fleiri en undirliggjandi hlutabréfin sjálf, þá er ljóst að einfaldleikinn sem gerði sjóðina vinsæla er víða horfinn – og að ábyrgðin á réttri ákvörðun hvílir nú þyngra á herðum fjárfestanna sjálfra.