Síminn hefur sent frá sér tilkynningu vegna bráðabirgðaákvörðunar Fjarskiptastofu í máli Símans og Sýnar.
FST komst að þeirri niðurstöðu að Sýn væri skylt að verða við beiðni Símans um aðgang að sjónvarpsútsendingum sínum.
Ákvörðunin gildir til 1. febrúar 2026, en er framlengjanleg með frekari skilyrðum til 1. september 2026 náist ekki samningar fyrir þann tíma.
Síminn mun því dreifa opnu rásinni Sýn til viðskiptavina sinna án endurgjalds auk þess að selja og dreifa áskriftum að íþróttastöðvum Sýnar á kerfum Símans.
Sýn hefur gagnrýnt ákvörðunina harðlega og kært ákvörðunina til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála, auk þess sem beðið hefur verið um frestun réttaráhrifa á meðan málið er til meðferðar.
„Kjarni ákvörðunar Fjarskiptastofu er að fjölmiðlaveitum sé lögum samkvæmt skylt að verða við beiðnum fjarskiptafyrirtækja um dreifingu sjónvarpsútsendinga. Stofnunin hefur hins vegar ekki heimildir til að hlutast til um dreifingu ólínulegs efnis. Sýn þarf þess vegna ekki að veita aðgang að efnisveitu sinni Sýn+ og hún verður ekki aðgengileg á kerfum Símans,“ segir í fréttatilkynningu Símans.
Samkvæmt Símanum greiðir félagið Sýn að fullu fyrir áskriftir samkvæmt gjaldi sem Fjarskiptastofa ákvað til bráðabirgða. Samkvæmt Símanum verður Sýn því ekki fyrir neinu tjóni vegna ákvörðunarinnar.
„Þvert á móti má ætla að Sýn selji fleiri áskriftir vegna hennar,“ segir í tilkynningunni.
Verðið sem Síminn greiðir fyrir aðgang að efninu er þó lægra en smásöluverðið, án virðisaukaskatts, á meðan hefðbundin málsmeðferð stendur yfir.
Ef lokaverð í endanlegri ákvörðun verður lægra eða hærra en þetta bráðabirgðaverð verður mismunurinn gerður upp síðar afturvirkt frá og með 1. ágúst 2025.
„Við tökum undir ákvörðun Fjarskiptastofu sem er bæði í samræmi við lög og kröfur áhorfenda í nútímasamfélagi, sem vilja hafa val um hvar þeir nálgast sínar útsendingar,“ segir María Björk Einarsdóttir forstjóri Símans.
„Því hefði fylgt mikið óhagræði fyrir neytendur ef ákvörðun Sýnar hefði gengið eftir. Í því samhengi má rifja upp að þegar Síminn hélt á sýningarrétti á enska boltanum var hann jafnframt aðgengilegur á kerfum Sýnar, enda aðgengi og virk samkeppni hagsmunamál fyrir neytendur.“
Síminn segir það ekki rétt að ástæðan fyrir áformum Sýnar væri sú að ekki tækist að semja við Símann um miðlun efnisins.
„Hið rétta er að Síminn hefur ítrekað óskað eftir aðgangi að útsendingum Sýnar, lögum samkvæmt, sem nú hefur verið tryggður með ákvörðun Fjarskiptastofu.
Sömuleiðis hefur borið á misskilningi þess efnis að Síminn hafi áður synjað Sýn um aðgang að Sjónvarpi Símans Premium. Hið rétta er að innleiðing Premium á kerfi Sýnar var langt komin áður en Sýn sleit samningaviðræðum þess efnis í vor.“