Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,36% í 2,8 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag.
Upplýsingatæknifyrirtækið Origo leiddi lækkanir en gengi félagsins féll um 2% í 30 milljóna króna veltu og stendur nú í 73,5 krónum á hlut. Helmingur félaga á aðalmarkaði lækkaði í viðskiptum dagsins.
Hlutabréfaverð Iceland Seafood lækkaði um 1,5% í óverulegum viðskiptum. Brim lækkaði um 1,1% í 70 milljóna viðskiptum.
Einungis fimm félög hækkuðu í viðskiptum dagsins. Mest hækkaði Hagar, um 1,3% í 200 milljón króna viðskiptum. Skeljungur hækkaði um tæp 1,3% í óverulegum viðskiptum. VÍS hækkaði um 0,8% í 50 milljón króna viðskiptum og fasteignafélögin Reginn og Reitir hækkuðu bæði um rúmt hálft prósent.
Mest velta var með bréf Marel sem lækkuðu um 0,55% í 660 milljóna viðskiptum. Gengi Marel stendur nú í 728 krónum á hlut. Gengi bréfa Kviku banka lækkaði um tæp 0,9% í 500 milljóna viðskiptum.