Jean Tiro­le, pró­fessor við Tou­lou­se School of Economics og hand­hafi Nóbels­verð­launa í hag­fræði árið 2014, segir að skortur á reglu­setningu og eftir­liti með stöðug­leika­myntum (e. stablecoins) geti skapað kerfislæga áhættu og leitt til milljarða dollara ríkisábyrgða ef slíkar myntir missa verð­gildi sitt í framtíðar fjár­mála­kreppu.

Í viðtali við Financial Times sagði Tiro­le að hann hefði „mjög miklar áhyggjur“ af því að áhlaup (e. run on assets) gæti myndast ef traustið á vara­sjóðum myntanna bresti, sem myndi raska gengis­tengingu þeirra við gjald­miðla eins og bandaríkja­dal.

Stöðug­leika­myntir á borð við Tet­her og Circ­le, sem byggja á fullri tryggingu með fjár­festingum í ríkis­skulda­bréfum Bandaríkjanna og öðrum áhættu­minni eignum, hafa vaxið hratt á heims­vísu.

Markaðsvirði þeirra er nú metið á um 280 milljarða dollara, eftir að ný bandarísk löggjöf í júlí heimilaði við­skipta­bönkum að gefa út eigin stafrænar inn­láns­einingar tengdar bandaríkja­dal.

Donald Trump Bandaríkja­for­seti og fjöl­skylda hans hafa lýst yfir stuðningi við raf­myntir og fjár­fest í fyrir­tækjum sem gefa út slík fjár­málatæki, þar á meðal út­gefanda stablecoin-myntarinnar USD1.

Tiro­le benti á að raunávöxtun bandarískra ríkis­skulda­bréfa hafi á tíma­bilum verið mjög lág eða jafn­vel neikvæð, þegar verðbólga er tekin með í reikninginn.

Slíkt gæti freistað út­gef­enda stöðug­leika­mynta til að auka vægi áhættu­meiri eigna með hærri væntri ávöxtun í vara­sjóðum sínum.

Þessi aukna áhættusækni myndi hins vegar hækka líkur á því að verðmæti vara­sjóðsins rýrnaði, sem gæti valdið tapi á gengis­tengingu stöðug­leika­myntarinnar og þar með áhlaupi frá not­endum sem telja sig eiga „örugg“ inn­lán.

Þá myndi skapast þrýstingur á stjórn­völd að tryggja innstæðurnar með opin­berum björgunar­að­gerðum, líkt og tíðkast hefur í hefðbundnum banka­rekstri.

Tiro­le sagði að þétt reglu­verk og virkt alþjóð­legt eftir­lit gæti dregið úr þessari áhættu. Hann efaðist þó um að nægur pólitískur vilji og fjár­munir væru til staðar, sér­stak­lega í ljósi mögu­legra hags­muna­tengsla lykilaðila í Bandaríkja­stjórn við raf­mynta­geirann.

Viðvörun Tiro­le kemur stuttu eftir að Seðla­banki Evrópu lýsti yfir áhyggjum af því að aukin út­breiðsla bandaríkja­dollara­tengdra stöðug­leika­mynta gæti tak­markað svigrúm hans til peninga­stefnu.

Alþjóða­greiðslu­bankinn (BIS) hefur einnig bent á að slíkar myntir standist illa skil­yrði þess að gegna hlut­verki al­menns gjald­miðils.