Jean Tirole, prófessor við Toulouse School of Economics og handhafi Nóbelsverðlauna í hagfræði árið 2014, segir að skortur á reglusetningu og eftirliti með stöðugleikamyntum (e. stablecoins) geti skapað kerfislæga áhættu og leitt til milljarða dollara ríkisábyrgða ef slíkar myntir missa verðgildi sitt í framtíðar fjármálakreppu.
Í viðtali við Financial Times sagði Tirole að hann hefði „mjög miklar áhyggjur“ af því að áhlaup (e. run on assets) gæti myndast ef traustið á varasjóðum myntanna bresti, sem myndi raska gengistengingu þeirra við gjaldmiðla eins og bandaríkjadal.
Stöðugleikamyntir á borð við Tether og Circle, sem byggja á fullri tryggingu með fjárfestingum í ríkisskuldabréfum Bandaríkjanna og öðrum áhættuminni eignum, hafa vaxið hratt á heimsvísu.
Markaðsvirði þeirra er nú metið á um 280 milljarða dollara, eftir að ný bandarísk löggjöf í júlí heimilaði viðskiptabönkum að gefa út eigin stafrænar innlánseiningar tengdar bandaríkjadal.
Donald Trump Bandaríkjaforseti og fjölskylda hans hafa lýst yfir stuðningi við rafmyntir og fjárfest í fyrirtækjum sem gefa út slík fjármálatæki, þar á meðal útgefanda stablecoin-myntarinnar USD1.
Tirole benti á að raunávöxtun bandarískra ríkisskuldabréfa hafi á tímabilum verið mjög lág eða jafnvel neikvæð, þegar verðbólga er tekin með í reikninginn.
Slíkt gæti freistað útgefenda stöðugleikamynta til að auka vægi áhættumeiri eigna með hærri væntri ávöxtun í varasjóðum sínum.
Þessi aukna áhættusækni myndi hins vegar hækka líkur á því að verðmæti varasjóðsins rýrnaði, sem gæti valdið tapi á gengistengingu stöðugleikamyntarinnar og þar með áhlaupi frá notendum sem telja sig eiga „örugg“ innlán.
Þá myndi skapast þrýstingur á stjórnvöld að tryggja innstæðurnar með opinberum björgunaraðgerðum, líkt og tíðkast hefur í hefðbundnum bankarekstri.
Tirole sagði að þétt regluverk og virkt alþjóðlegt eftirlit gæti dregið úr þessari áhættu. Hann efaðist þó um að nægur pólitískur vilji og fjármunir væru til staðar, sérstaklega í ljósi mögulegra hagsmunatengsla lykilaðila í Bandaríkjastjórn við rafmyntageirann.
Viðvörun Tirole kemur stuttu eftir að Seðlabanki Evrópu lýsti yfir áhyggjum af því að aukin útbreiðsla bandaríkjadollaratengdra stöðugleikamynta gæti takmarkað svigrúm hans til peningastefnu.
Alþjóðagreiðslubankinn (BIS) hefur einnig bent á að slíkar myntir standist illa skilyrði þess að gegna hlutverki almenns gjaldmiðils.