Hagfræðingar þýska bankans Commerzbank áætla að útflutningur frá evrusvæðinu til Bandaríkjanna muni dragast saman um fjórðung á næstu tveimur árum vegna tolla bandarískra stjórnvalda. Financial Times greinir frá.
Nýr viðskiptasamningur Bandaríkjanna og Evrópusambandsins (ESB), sem felur í sér að lagður verði 15% tollur á flestar útflutningsvörur frá ESB til Bandaríkjanna, muni hækka meðalinnflutningsgjöld um 10 prósentustig samanborið við síðasta ár, að því er segir í greiningu sem þýski bankinn sendi viðskiptavinum í morgun.
„Þetta mun gera mörgum fyrirtækjum mun erfiðara fyrir að selja inn á mikilvægasta erlenda markaðinn sinn,“ segir í bréfinu.
Aðalhagfræðingur þýska fjárfestingarbankans Barenberg áætlar að tollarnir muni leiða til þess að hagvöxtur á evrusvæðinu verði 0,3 prósentustigum lægri en ella í ár og á næsta ári. Hann bætti við að stuðningsaðgerðir þýska ríkisins muni vega að stærstum hluta uppi á móti minni hagvexti vegna tolla í Þýskalandi.
Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í morgun hafa fjármálamarkaðir tekið vel í viðskiptasamninginn.
Nokkur aðildarríki ESB og hagsmunasamtök á evrusvæðinu hafa gagnrýnt samninginn og telja að ESB hefði átt að ganga harðar fram til að ná fram betri kjörum. Samtök iðnaðarins í Þýskalandi (Federation of German Industries) hafa gagnrýnt samninginn og segja hann fela í sér ójafna málamiðlun.