Fjárfestar í skuldabréfum sveitarfélaga í ruslflokki í Bandaríkjunum (e. high-yield muni bonds) standa frammi fyrir vaxandi óvissu um verðmæti eigna sinna, þar sem skortur á virkum viðskiptum og ónákvæmt verðmat hefur leitt til mikilla lækkana.
Markaðurinn fyrir áhættusöm sveitarfélagabréf í Bandaríkjunum stendur nú frammi fyrir álitshnekkjum eftir að lítill en skuldabréfasjóður, rekinn af Easterly Asset Management, seldi stóran hluta af bréfum sínum með miklu lægra verði en áður var talið að þau væru virði.
Samkvæmt The Wall Street Journal hefur þetta vakið spurningar um hvort að verðmat á slíkum skuldabréfum sé almennt of bjartsýnt og jafnvel villandi.
Verðmatið kom í ljós við raunveruleg viðskipti
Í júní síðastliðnum hóf Easterly að selja hluta eigna hávaxtasjóðs síns. Gengi sjóðsins hafði áður verið skráð sem sex Bandaríkjadalir á hlut, en eftir söluna féll það niður í um þrjá dali.
Ástæðan fyrir lækkuninni er sú að margir fjárfestar voru ekki reiðubúnir að greiða það verð sem sjóðsstjórar höfðu áður metið bréfin á enda höfðu sum þeirra ekki verið seld í mörg ár.
Sjóðsstjórar höfðu byggt verðmat sitt á úreltum gögnum og eigin útreikningum, en í ljós kom að raunveruleg markaðsverð voru talsvert lægri.
Talsmaður Easterly sagði að raunveruleg verðmyndun væri aðeins til þegar virk viðskipti eiga sér stað og að „verðmat bréfanna hafi verið skrifað með blýanti, ekki penna“.
Hvað eru „junk muni“ bréf?
Hávaxtaskuldabréf sveitarfélaga (e. high-yield municipal bonds) eru bréf gefin út af borgum, sýslum eða sérstökum verkefnaaðilum og eru ekki studd af skatttekjum heldur væntanlegum rekstrartekjum verkefnisins sjálfs.
Dæmi eru um fjármögnun lúxushjúkrunarheimila, verslunarmiðstöðva með innanhúss skíðabrekkum og íþróttasvæða en rekstur þessara framkvæmda hefur reynst misjafn.
Þessi bréf flokkast undir „junk bonds“ vegna lágs lánshæfismats og mikillar áhættu en bera á móti hærri vexti. Þau hafa vakið áhuga meðal fjárfesta sem sækjast eftir mikilli ávöxtun.
Mikil skekkja í verðmati
Eitt áberandi dæmi úr Easterly-sjóðnum er skuldabréf tengt lúxushjúkrunarheimilinu The Buckingham í Houston, Texas. Í maí mátu fjárfestingasjóðirnir Nuveen og Invesco bréfið á 35–36 cent á hvern dollar. Þegar það var loks selt í júní var það hins vegar aðeins keypt á um 7 cent.
Nuveen sagði í tilkynningu að þeirra mat hefði byggst á trúnaðargögnum sem einungis væru aðgengileg aðilum sem koma að endurskipulagningu skulda.
Slíkt vekur athygli á því hversu erfitt getur verið fyrir fjárfesta að átta sig á raunverulegu virði slíkra eigna.
Sjóðir sem geyma illa seljanleg skuldabréf þurfa að uppfylla reglur um nægilegt lausafé. Til að uppfylla slíkar kröfur neyðast þeir stundum til að selja eignir í bráð, með þeim afleiðingum að verð fellur hratt og dregur úr trausti á markaðnum.
Á sama tíma hafa ávöxtunarkröfur og verðþróun verið neikvæð í bæði hefðbundnum og áhættusömum sveitarfélagabréfum síðustu misseri. Stór verkefni, eins og hraðlest í Flórída sem nýverið tilkynnti um frestun vaxtagreiðslna, hafa hrist upp í trausti markaðarins.
„Verðin sem fjárfestar sjá á reikningum sínum eru áætluð,“ segir Matt Fabian, greiningaraðili hjá Municipal Market Analytics. „Þau eru skrifuð með blýanti en ekki penna.“
Óvissan á markaðnum dregur fram mikilvægi þess að fjárfestar geri sér grein fyrir að ekki öll verðmat eru byggð á traustri viðskiptavirkni og að verð á einstaka eignum getur verið verulega frábrugðið þeim sem sjóðir telja líklegan markaðsverðmiða.