Fjár­festar í skulda­bréfum sveitarfélaga í rusl­flokki í Bandaríkjunum (e. high-yi­eld muni bonds) standa frammi fyrir vaxandi óvissu um verðmæti eigna sinna, þar sem skortur á virkum við­skiptum og ónákvæmt verðmat hefur leitt til mikilla lækkana.

Markaðurinn fyrir áhættusöm sveitarfélaga­bréf í Bandaríkjunum stendur nú frammi fyrir álits­hnekkjum eftir að lítill en skulda­bréfa­sjóður, rekinn af Ea­ster­ly Asset Mana­gement, seldi stóran hluta af bréfum sínum með miklu lægra verði en áður var talið að þau væru virði.

Sam­kvæmt The Wall Street Journal hefur þetta vakið spurningar um hvort að verðmat á slíkum skulda­bréfum sé al­mennt of bjartsýnt og jafn­vel villandi.

Verðmatið kom í ljós við raun­veru­leg við­skipti

Í júní síðastliðnum hóf Ea­ster­ly að selja hluta eigna há­vaxta­sjóðs síns. Gengi sjóðsins hafði áður verið skráð sem sex Bandaríkja­dalir á hlut, en eftir söluna féll það niður í um þrjá dali.

Ástæðan fyrir lækkuninni er sú að margir fjár­festar voru ekki reiðu­búnir að greiða það verð sem sjóðs­stjórar höfðu áður metið bréfin á enda höfðu sum þeirra ekki verið seld í mörg ár.

Sjóðs­stjórar höfðu byggt verðmat sitt á úreltum gögnum og eigin út­reikningum, en í ljós kom að raun­veru­leg markaðsverð voru tals­vert lægri.

Tals­maður Ea­ster­ly sagði að raun­veru­leg verð­myndun væri aðeins til þegar virk við­skipti eiga sér stað og að „verðmat bréfanna hafi verið skrifað með blýanti, ekki penna“.

Hvað eru „junk muni“ bréf?

Há­vaxta­skulda­bréf sveitarfélaga (e. high-yi­eld municipal bonds) eru bréf gefin út af borgum, sýslum eða sér­stökum verk­efna­aðilum og eru ekki studd af skatt­tekjum heldur væntan­legum rekstrar­tekjum verk­efnisins sjálfs.

Dæmi eru um fjár­mögnun lúxus­hjúkrunar­heimila, verslunar­miðstöðva með innan­húss skíða­brekkum og íþrótta­svæða en rekstur þessara fram­kvæmda hefur reynst mis­jafn.

Þessi bréf flokkast undir „junk bonds“ vegna lágs láns­hæfis­mats og mikillar áhættu en bera á móti hærri vexti. Þau hafa vakið áhuga meðal fjár­festa sem sækjast eftir mikilli ávöxtun.

Mikil skekkja í verðmati

Eitt áberandi dæmi úr Ea­ster­ly-sjóðnum er skulda­bréf tengt lúxus­hjúkrunar­heimilinu The Bucking­ham í Hou­ston, Texas. Í maí mátu fjár­festinga­sjóðirnir Nu­veen og Invesco bréfið á 35–36 cent á hvern dollar. Þegar það var loks selt í júní var það hins vegar aðeins keypt á um 7 cent.

Nu­veen sagði í til­kynningu að þeirra mat hefði byggst á trúnaðargögnum sem einungis væru að­gengi­leg aðilum sem koma að endur­skipu­lagningu skulda.

Slíkt vekur at­hygli á því hversu erfitt getur verið fyrir fjár­festa að átta sig á raun­veru­legu virði slíkra eigna.

Sjóðir sem geyma illa seljan­leg skulda­bréf þurfa að upp­fylla reglur um nægi­legt lausafé. Til að upp­fylla slíkar kröfur neyðast þeir stundum til að selja eignir í bráð, með þeim af­leiðingum að verð fellur hratt og dregur úr trausti á markaðnum.

Á sama tíma hafa ávöxtunar­kröfur og verðþróun verið neikvæð í bæði hefðbundnum og áhættusömum sveitarfélaga­bréfum síðustu misseri. Stór verk­efni, eins og hrað­lest í Flórída sem nýverið til­kynnti um frestun vaxta­greiðslna, hafa hrist upp í trausti markaðarins.

„Verðin sem fjár­festar sjá á reikningum sínum eru áætluð,“ segir Matt Fabian, greiningaraðili hjá Municipal Market Analytics. „Þau eru skrifuð með blýanti en ekki penna.“

Óvissan á markaðnum dregur fram mikilvægi þess að fjár­festar geri sér grein fyrir að ekki öll verðmat eru byggð á traustri við­skipta­virkni og að verð á ein­staka eignum getur verið veru­lega frábrugðið þeim sem sjóðir telja lík­legan markaðsverðmiða.