84 milljóna króna tap varð á rekstri Pizzunnar ehf. á síðasta ári en félagið rekur alls átta samnefnda pitsustaði, sjö á höfuðborgarsvæðinu og einn á Akureyri. Jókst tapið frá fyrra ári er það nam 62 milljónum króna.
Velta pitsukeðjunnar jókst þó verulega á milli ára. Árið 2019 nam hún 594 milljónum króna en í fyrra var veltan orðin rúmlega einn milljarður króna. Rekstrargjöld jukust að sama skapi nokkuð ríflega milli ára og hækkuðu úr 628 milljónum króna árið 2019 í 1,1 milljarð króna ári síðar.
Eignir félagsins námu 196 milljónum króna í árslok 2020, skuldir 456 milljónum króna og eigið fé var neikvætt um 261 milljón króna, en í árslok 2019 var eigið fé neikvætt um 175 milljónir króna.
Að jafnaði störfuðu 48 hjá félaginu í fyrra og námu launagreiðslur alls 404 milljónum króna.
Pizzan er að fullu í eigu Ólafs Friðriks Ólafssonar.