Flugfélagið Play hvetur Þórólf Guðnason sóttvarnarlækni til að hafa samband, því hann eigi skilið gott frí. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu flugfélagsins á Facebook, en tilefni færslunnar er viðtal við Þórólf á Vísi .
Þar segir sóttvarnarlæknir að toppi faraldursins hafi mögulega verið náð og faraldurinn sé hugsanlega á leið niður. Þar greinir hann jafnframt frá því að hann sé á leiðinni í frí til útlanda í fyrsta sinn frá því faraldurinn hófst.
Þórólfur hefur staðið í ströngu síðastliðin tvö ár, eða allt frá því að Covid-19 faraldurinn barst til Íslands. Allt frá þeim tíma hefur baráttan við faraldurinn verið í brennidepli og þar hefur sóttvarnarlæknir staðið fremstur í flokki. Eins og þekkt er orðið voru allar sóttvarnaraðgerðir feldar brott fyrir skömmu. Þykir eflaust sumum utanlandsferð Þórólfs til marks um að staðan gagnvart faraldrinum sé með besta móti.