Flugfélagið Play sendi frá sér neikvæða afkomuviðvörun eftir lokun Kauphallarinnar í dag. Fyrirtækið segir undirbúning uppgjörs fyrir annan ársfjórðung benda til þess að afkoma verði lakari en á sama tímabili í fyrra og undir væntingum.

Play gerir ráð fyrir tapi upp á um það bil 16 milljónir dala á fjórðungnum, eða hátt í 2 milljarða króna, samanborið við tap upp á 10 milljónir dala á sama tímabili í fyrra.

Bera fyrir sig þrjá ytri þætti

Flugfélagið rekur frávik frá væntingum að mestu til þriggja þátta sem félagið hafi ekki áhrif á sjálft.

Í fyrsta lagi nefnir Play neikvæð gengisáhrif upp á ríflega 2,5 milljónir dala, eða um 300 milljónir króna, vegna styrkingar íslensku krónunnar, sem hafði aðallega áhrif á laun, afgreiðslu- og flugvallargjöld.

Þá hafi Atlantshafsmarkaðurinn verið veikari en áætlað var, vegna minni eftirspurnar miðað við sama tímabil í fyrra. Þess má geta að uppgjör Icelandair bar einnig fyrir sig að styrking krónunnar og krefjandi aðstæður á Atlantshafsmarkaði hefði litað afkomu félagsins á þriðja ársfjórðungi.

Play greinir einnig frá því að flugvél sem átti að fara til dótturfélagsins Play Europe í byrjun vors hafi tafist óvænt vegna viðhalds, sem leiddi til tekjutaps upp á 1,1 milljón dala, eða um 130 milljónir króna.

Play segist aftur á móti hafa ráðist í hagræðingaraðgerðir sem hafi ekki skilað fullum áhrifum enn sem komið er á meðan unnið er að breytingum á viðskiptalíkani félagsins. Þessar breytingar feli í sér tilfallandi kostnað sem hafi einnig áhrif á afkomu tímabilsins.

„Rekstur á leiðarkerfi Play og sætanýting eru í takt við væntingar, og tekjur á hvert sæti (RASK) eru hærri en í fyrra. Þá líta lykiltölur í hefðbundnum flugrekstri vel út.“

Flugfélagið áformar að birta árshlutauppgjör fyrir annan ársfjórðung þann 7. ágúst næstkomandi.

Play hefur áður gefið út að flugfélagið stefni að því að hætta flugi til Norður-Ameríku frá og með október næstkomandi ásamt því að borgaráfangastöðum í Norður-Evrópu verður fækkað. Þá hyggst félagið fljúga undir maltnesku flugrekstrarleyfi og skila inn íslenska flugrekstrarleyfinu.

Nýtt viðskiptalíkan félagsins felur í sér að fjórar flugvélar muni sinna flugi frá Íslandi, þar sem áhersla verður á framboð til sólarlandastaða og borga sem eru vinsælar meðal Íslendinga. Hinar sex vélarnar verði hins vegar leigðar í arðbær verkefni til annarra flugrekenda.

Play tilkynnti þann 8. júlí síðastliðinn að það hefði tryggt sér bindandi skilyrt áskriftarloforð um kaup fjárfesta á breytanlegu skuldabréfi að samanlögðu andvirði 2.425 milljónir króna, eða um 20 milljónir dala. Gjalddagi breytanlegu skuldabréfanna er 24 mánuðum eftir útgáfudag. Breytanlegu skuldabréfin munu bera 17,5% fasta vexti og verður skuldabréfaeigendum heimilt að umbreyta þeim í hlutabréf á genginu 1 króna á hlut.

Samhliða tilkynnti Play um að fjárfestahópur sem hafði í síðasta mánuði boðað yfirtökutilboð á tilboðsverðinu 1,0 krónu á hlut, hefði fallið frá áformunum.

Eignir Play voru bókfærðar á 362,9 milljónir dala, eða um 47,9 milljarða króna, í lok fyrsta ársfjórðungs og eigið fé var neikvætt um 60,4 milljónir dala eða um 8 milljarða króna. Handbært fé nam 21,1 milljón dala eða um 2,8 milljörðum króna í lok mars.