Hlutabréfaverð Play hefur fallið um meira en 20% í fyrstu viðskiptum í dag eftir að flugfélagið sendi frá sér neikvæða afkomuviðvörun í gær. Árétta skal að um litla veltu er að ræða.
Gengi hlutabréfa Play stendur í 0,47 krónum á hlut þegar fréttin er skrifuð en til samanburðar var 0,60 króna dagslokagengi flugfélagsins í gær það lægsta frá skráningu félagsins í Kauphöllina sumarið 2021. Gengi Play fór lægst í 0,37 krónur í morgun.
Play sagði í tilkynningu eftir lokun markaða í gær að undirbúningur uppgjörs fyrir annan ársfjórðung bendi til þess að afkoma verði lakari en á sama tímabili í fyrra og undir væntingum.
Play gerir ráð fyrir tapi upp á um það bil 16 milljónir dala á fjórðungnum, eða hátt í 2 milljarða króna, samanborið við tap upp á 10 milljónir dala á sama tímabili í fyrra.
Flugfélagið sagði að þrír ytri þættir hefðu haft neikvæð áhrif á reksturinn að undanförnu. Í fyrsta lagi hafi styrking krónunnar leitt til neikvæðra gengisáhrifa að fjárhæð ríflega 300 milljónir króna og eftirspurn á Atlantshafsmarkaði var minni en áætlað var. Þá tafðist afhending flugvélar til dótturfélagsins Play Europe óvænt vegna viðhalds sem leiddi til tekjutaps upp á 130 milljónir króna.
Auk þess sagði Play að hagræðingaraðgerðir, sem hafi ekki skilað fullum áhrifum enn sem komið er á meðan unnið er að breytingum á viðskiptalíkani félagsins, feli í sér tilfallandi kostnað sem hafi einnig áhrif á afkomu tímabilsins.
„Rekstur á leiðarkerfi Play og sætanýting eru í takt við væntingar, og tekjur á hvert sæti (RASK) eru hærri en í fyrra. Þá líta lykiltölur í hefðbundnum flugrekstri vel út.“
Flugfélagið áformar að birta árshlutauppgjör fyrir annan ársfjórðung þann 7. ágúst næstkomandi.
Play tilkynnti þann 8. júlí síðastliðinn að það hefði tryggt sér bindandi skilyrt áskriftarloforð um kaup fjárfesta á breytanlegu skuldabréfi að samanlögðu andvirði 2.425 milljónir króna, eða um 20 milljónir dala. Gjalddagi breytanlegu skuldabréfanna er 24 mánuðum eftir útgáfudag. Breytanlegu skuldabréfin munu bera 17,5% fasta vexti og verður skuldabréfaeigendum heimilt að umbreyta þeim í hlutabréf á genginu 1 króna á hlut.
Samhliða tilkynnti Play um að fjárfestahópur sem hafði í síðasta mánuði boðað yfirtökutilboð á tilboðsverðinu 1,0 krónu á hlut, hefði fallið frá áformunum.
Eignir Play voru bókfærðar á 362,9 milljónir dala, eða um 47,9 milljarða króna, í lok fyrsta ársfjórðungs og eigið fé var neikvætt um 60,4 milljónir dala eða um 8 milljarða króna. Handbært fé nam 21,1 milljón dala eða um 2,8 milljörðum króna í lok mars.