Ray Dalio, stofnandi og fyrr­verandi for­stjóri bandaríska vogunar­sjóðsins Brid­gewa­ter Associa­tes, hefur nú selt síðasta hlut sinn í fyrir­tækinu og sagt sig jafn­framt úr stjórn þess.

Með því lýkur yfir ára­tugar­löngu, og að hluta til stormasömu, valda­baráttu hjá einum áhrifa­mesta fjár­festi heims.

Í kjölfar þess að Brid­gewa­ter keypti síðasta eignar­hlut Dalio gaf fyrir­tækið út nýtt hluta­fé sem fjár­fest var í af Bru­nei Invest­ment Agen­cy, þjóðar­jóði Bru­nei.

Sam­kvæmt heimildum The Wall Street Journal færðist fjár­festingin yfir úr sjóði sem Brúnei áður átti í hjá Brid­gewa­ter og yfir í beina eignaraðild að fyrir­tækinu sjálfu.

Eftir við­skiptin hefur Brúnei orðið einn stærsti ein­staki hlut­hafi vogunar­sjóðsins með um 20% hlut. Þó er talið að Bob Prince, einn af tveimur fram­kvæmda­stjórum fjár­festinga hjá Brid­gewa­ter, eigi enn stærri hlut.

Hvorki kaupin á hlut Dalio né nýja hluta­fjáraukningin með þátt­töku Brúnei höfðu áður verið opin­beruð. Í bréfi til fjár­festa sagði yfir­stjórn Brid­gewa­ter að þetta væri „hin full­komna lokaniður­staða“ í yfir­færslu eignar­halds.

Dalio, sem er 75 ára, sagði í yfir­lýsingu að hann hlakkaði til að fylgjast með áfram­haldandi árangri Brid­gewa­ter. Hann heldur enn á fjár­munum í sjóðum fyrir­tækisins og verður viðstaddur há­tíða­höld á 50 ára af­mæli þess í Connecticut og New York síðar á árinu.

Þrátt fyrir að Dalio hafi áður látið af störfum sem for­stjóri, fjár­festinga­stjóri og stjórnar­for­maður hafði hann áfram haft tals­verð áhrif á starf­semi Brid­gewa­ter.

Heimildir WSJ herma að hann hafi reglu­lega skipt sér af ákvarðanatöku og haft áhrif á stjórn fyrir­tækisins.

Yfir­stjórn vonast nú til þess að full­komið brott­hvarf Dalio úr eig­enda­hópi og stjórn geri stjórn­kerfi fyrir­tækisins ein­faldara og skýrara.

Eignir í stýringu Brid­gewa­ter hafa minnkað tölu­vert á síðustu árum. Í árs­lok 2024 var félagið með um 92,1 milljarð dala í stýringu. Til saman­burðar var félagið með 168 milljarða dala í stýringu í árs­lok 2019.