Ray Dalio, stofnandi og fyrrverandi forstjóri bandaríska vogunarsjóðsins Bridgewater Associates, hefur nú selt síðasta hlut sinn í fyrirtækinu og sagt sig jafnframt úr stjórn þess.
Með því lýkur yfir áratugarlöngu, og að hluta til stormasömu, valdabaráttu hjá einum áhrifamesta fjárfesti heims.
Í kjölfar þess að Bridgewater keypti síðasta eignarhlut Dalio gaf fyrirtækið út nýtt hlutafé sem fjárfest var í af Brunei Investment Agency, þjóðarjóði Brunei.
Samkvæmt heimildum The Wall Street Journal færðist fjárfestingin yfir úr sjóði sem Brúnei áður átti í hjá Bridgewater og yfir í beina eignaraðild að fyrirtækinu sjálfu.
Eftir viðskiptin hefur Brúnei orðið einn stærsti einstaki hluthafi vogunarsjóðsins með um 20% hlut. Þó er talið að Bob Prince, einn af tveimur framkvæmdastjórum fjárfestinga hjá Bridgewater, eigi enn stærri hlut.
Hvorki kaupin á hlut Dalio né nýja hlutafjáraukningin með þátttöku Brúnei höfðu áður verið opinberuð. Í bréfi til fjárfesta sagði yfirstjórn Bridgewater að þetta væri „hin fullkomna lokaniðurstaða“ í yfirfærslu eignarhalds.
Dalio, sem er 75 ára, sagði í yfirlýsingu að hann hlakkaði til að fylgjast með áframhaldandi árangri Bridgewater. Hann heldur enn á fjármunum í sjóðum fyrirtækisins og verður viðstaddur hátíðahöld á 50 ára afmæli þess í Connecticut og New York síðar á árinu.
Þrátt fyrir að Dalio hafi áður látið af störfum sem forstjóri, fjárfestingastjóri og stjórnarformaður hafði hann áfram haft talsverð áhrif á starfsemi Bridgewater.
Heimildir WSJ herma að hann hafi reglulega skipt sér af ákvarðanatöku og haft áhrif á stjórn fyrirtækisins.
Yfirstjórn vonast nú til þess að fullkomið brotthvarf Dalio úr eigendahópi og stjórn geri stjórnkerfi fyrirtækisins einfaldara og skýrara.
Eignir í stýringu Bridgewater hafa minnkað töluvert á síðustu árum. Í árslok 2024 var félagið með um 92,1 milljarð dala í stýringu. Til samanburðar var félagið með 168 milljarða dala í stýringu í árslok 2019.