Ríkissjóður hefur selt fasteignir að Laugavegi 114 og 116 á horni Laugavegar og Snorrabrautar, sem hýsti áður Tryggingastofnun ríkisins (TR). Kaupandinn er Art Zone ehf., félag í eigu Gabríels Þórs Bjarnasonar.

Nánar tiltekið er um að ræða alla eignina að Laugavegi 114, sem er fimma hæða hús með kjallara – samtals 2.291 fermetri, og skrifstofuhúsnæði á 2.-4. hæð á Laugavegi 116, samtals 1.897 fermetrar.

Gabríel segir í samtali við Viðskiptablaðið að til standi að breyta húsnæðinu og gera það upp. Framundan sé skipulagsferli, sem gæti tekið örfá ár, þar sem fasteignin verður þróuð í sitt framtíðarform. Á meðan verður eignin leigð út í óbreyttri mynd.

„Við erum með hugmynd um að þetta verði kjarni fyrir listir og aðra skapandi starfsemi. Fasteignin býður auðvitað upp á fjölbreytta möguleika. Þarna er búin að eiga sér stað flott uppbygging í hverfinu og ég vona bara að okkar framlag verði jafnvel kveikja að frekari umbreytingu á svæðinu,“ segir Gabríel.

„Markmiðið okkar er að þessi blettur verði svona eins konar andstæða við þá miklu uppbyggingu sem hefur átt sér stað í hinum enda miðborgarinnar, þ.e. niður við Austurhöfn og Hafnartorg, sem einkennist af miklum lúxus. Við erum þannig að horfa til þess að vera með litríkt og skemmtilegt menningarsvæði sem verður eftirsóknarvert bæði fyrir Íslendinga og ferðamenn.“

Um er að ræða önnur kaup Gabríels á sögufrægu húsnæði á miðborgarsvæði Reykjavíkur á skömmum tíma en hann eignaðist JL-húsið að Hringbraut 121 á síðasta ári. Framkvæmdasýsla Ríkiseigna (FSRE), fyrir hönd Vinnumálastofnunar, leigir stóran hluta JL-hússins undir gistirými fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd.

Fréttin er hluti af nánari umfjöllun um Laugavegsreitinn í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild sinni hér, þar sem greint er frá kaupverðinu, og annað efni úr blaðinu hér.

Fasteignin að Laugavegi 114 og 116 hýsti starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins í hartnær 65 ár.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)