Seðlabanki Íslands hefur ákveðið tvöfalda reglubundin gjaldeyriskaup á millibankamarkaði og verða þau nú 12 milljónir evra í hverri viku, eða sem nemur 1,7 milljörðum króna miðað við núverandi gengi krónunnar. Breytingin tekur gildi á morgun, að því er kemur fram í tilkynningu á vef Seðlabankans.
Bankinn mun kaupa 3 milljónir evra skömmu eftir opnun markaðarins á þriðjudögum, miðvikudögum, fimmtudögum og föstudögum.
Seðlabankinn hóf reglubundin gjaldeyriskaup á millibankamarkaði í apríl fyrir samtals 6 milljónir evra á viku. Frá því að regluleg kaup hófust í apríl hefur bankinn keypt erlendan gjaldeyri að jafnvirði 7 milljarða króna.
Bankinn bendir á að sama tíma hafi gengi krónunnar á sama tíma hækkað lítillega. Seðlabankinn segist telja aðstæður nú vera hagstæðar til þess að auka regluleg kaup og að þau ættu ekki að hafa teljandi áhrif á gengi krónunnar. Hann muni hins vegar endurmeta gjaldeyriskaupin eftir því sem tilefni er til.
„Meginmarkmiðið með gjaldeyriskaupunum er sem fyrr að efla þann hluta gjaldeyrisforða Seðlabankans sem fjármagnaður er innanlands og að mæta gjaldeyrisþörf ríkissjóðs,“ segir í tilkynningunni.
„Nægjanlegur gjaldeyrisforði hefur gegnt veigamiklu hlutverki í að viðhalda stöðugleika og viðnámsþrótti þjóðarbúsins. Horfur eru á að forðinn minnki lítillega að öðru óbreyttu á næstu misserum vegna erlendra greiðslna sem Seðlabankinn innir af hendi fyrir hönd ríkissjóðs.“
Gjaldeyrisforðinn var 865 milljarðar króna í lok fyrsta ársfjórðungs sem samsvaraði um 116% af forðaviðmiði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Um miðjan júní hafði hann stækkað í 895 milljarða króna. Seðlabankinn stefnir að því að forðinn nemi á hverjum tíma a.m.k. 120% af forðaviðmiðinu.