Ritstjórn The Wall Street Journal fordæmir harðlega tilraunir þingmanna úr röðum stuðningsmanna Donalds Trump að hóta að kæra Jerome Powell, seðlabankastjóra Bandaríkjanna, vegna umdeildra framkvæmda á skrifstofum Seðlabankans í höfuðborginni.
Í leiðara blaðsins segir að gagnrýnin á 2,5 milljarða dollara viðgerð á skrifstofuhúsnæði bankans sé ekkert annað en yfirskin, raunverulegt tilefni sé gremja vegna sjálfstæðrar peningastefnu Powells.
Með því að vísa honum til sakamálarannsóknar hjá dómsmálaráðuneytinu sé verið að gera pólitískan skoðanamun að refsiverðu athæfi, sem WSJ segir minna á „peningastefnu Argentínu.“
Ágreiningurinn snýst formlega um að Powell hafi gefið misvísandi upplýsingar um lúxusatriði í byggingaráætlun Seðlabankans, s.s. sérstakan veitingasal fyrir stjórn bankans eða býflugnabú á þaki.
Powell fullyrti fyrir þingnefnd að þessi atriði væru ekki hluti af framkvæmdunum, þótt þau hafi upphaflega komið fram í skipulagsskýrslum.
Repúblikaninn Anna Paulina Luna, stuðningskona Trump, vísaði í vikunni málinu til dómsmálaráðuneytisins með beiðni um að Powell yrði tekinn til rannsóknar vegna meintrar rangrar upplýsingagjafar og mögulega meinsæris, fyrir þingnefnd.
Þessi krafa er liður í pólitískri atlögu að Powell, sem lengi hefur verið skotmark stuðningsmanna Trumps fyrir að fylgja sjálfstæðri peningastefnu sem ekki hefur þóknast fyrrverandi forsetanum.
Ritstjórn WSJ bendir á að þessi krafa eigi rætur í langvarandi óánægju Trump með Powell, sem neitaði að lækka stýrivexti fyrir forsetann á fyrsta kjörtímabili hans og hefur ítrekað varað við verðbólguáhrifum tollastefnu Trumps.
Með því að beina kastljósinu að umdeildum byggingaframkvæmdum á skrifstofum Seðlabankans telja sumir í kringum Trump sig geta skapað lagalega undirstöðu til að víkja Jerome Powell úr embætti. Wall Street Journal varar þó við að slík pólitísk aðför geti haft alvarlegar afleiðingar – hún gæti raskað trúverðugleika peningastefnunnar, valdið óróa á fjármálamörkuðum og grafið undan sjálfstæði Seðlabankans.
„Að gera stefnumótandi ágreining um peningamál að sakamáli er galið,“ segir í leiðaranum. „Slík þróun leiðir beinlínis til pólitískrar íhlutunar í peningamál, á borð við það sem þekkist í ríkjum eins og Argentínu.“
Í stað þess að ráðast gegn Powell persónulega hvetur WSJ þingmenn til að beina orku sinni í raunveruleg stefnumál: hvort tvíþætt markmið Seðlabankans, verðstöðugleiki og full atvinna eigi enn rétt á sér. Hvernig hann framkvæmir vaxtaákvarðanir og hvort greiðslur til banka vegna varasjóða eigi rétt á sér.
Powell lýkur embættistíma sínum í maí 2026 og verður líklega ekki endurskipaður en WSJ varar við því að hann verði fórnarlamb nýrrar hefðar: að saksækja embættismenn fyrir pólitísk ágreiningsmál. Það sé varasöm þróun í bandarísku lýðræði.