Rit­stjórn The Wall Street Journal for­dæmir harð­lega til­raunir þing­manna úr röðum stuðnings­manna Donalds Trump að hóta að kæra Jerome Powell, seðla­banka­stjóra Bandaríkjanna, vegna um­deildra fram­kvæmda á skrif­stofum Seðla­bankans í höfuð­borginni.

Í leiðara blaðsins segir að gagn­rýnin á 2,5 milljarða dollara við­gerð á skrif­stofu­húsnæði bankans sé ekkert annað en yfir­skin, raun­veru­legt til­efni sé gremja vegna sjálf­stæðrar peninga­stefnu Powells.

Með því að vísa honum til sakamála­rannsóknar hjá dóms­málaráðu­neytinu sé verið að gera pólitískan skoðana­mun að refsi­verðu at­hæfi, sem WSJ segir minna á „peninga­stefnu Argentínu.“

Ágreiningurinn snýst form­lega um að Powell hafi gefið mis­vísandi upp­lýsingar um lúxus­at­riði í byggingaráætlun Seðla­bankans, s.s. sér­stakan veitinga­sal fyrir stjórn bankans eða býflugna­bú á þaki.

Powell full­yrti fyrir þing­nefnd að þessi at­riði væru ekki hluti af fram­kvæmdunum, þótt þau hafi upp­haf­lega komið fram í skipu­lags­skýrslum.

Repúblikaninn Anna Paulina Luna, stuðnings­kona Trump, vísaði í vikunni málinu til dóms­málaráðu­neytisins með beiðni um að Powell yrði tekinn til rannsóknar vegna meintrar rangrar upp­lýsinga­gjafar og mögu­lega meinsæris, fyrir þing­nefnd.

Þessi krafa er liður í pólitískri atlögu að Powell, sem lengi hefur verið skot­mark stuðnings­manna Trumps fyrir að fylgja sjálf­stæðri peninga­stefnu sem ekki hefur þóknast fyrr­verandi for­setanum.

Rit­stjórn WSJ bendir á að þessi krafa eigi rætur í lang­varandi óánægju Trump með Powell, sem neitaði að lækka stýri­vexti fyrir for­setann á fyrsta kjörtíma­bili hans og hefur ítrekað varað við verðbólguáhrifum tolla­stefnu Trumps.

Með því að beina kastljósinu að um­deildum bygginga­fram­kvæmdum á skrif­stofum Seðla­bankans telja sumir í kringum Trump sig geta skapað laga­lega undir­stöðu til að víkja Jerome Powell úr em­bætti. Wall Street Journal varar þó við að slík pólitísk aðför geti haft al­var­legar af­leiðingar – hún gæti raskað trúverðug­leika peninga­stefnunnar, valdið óróa á fjár­málamörkuðum og grafið undan sjálf­stæði Seðla­bankans.

„Að gera stefnumótandi ágreining um peninga­mál að sakamáli er galið,“ segir í leiðaranum. „Slík þróun leiðir bein­línis til pólitískrar íhlutunar í peninga­mál, á borð við það sem þekkist í ríkjum eins og Argentínu.“

Í stað þess að ráðast gegn Powell persónu­lega hvetur WSJ þing­menn til að beina orku sinni í raun­veru­leg stefnumál: hvort tvíþætt mark­mið Seðla­bankans, verðstöðug­leiki og full at­vinna eigi enn rétt á sér. Hvernig hann fram­kvæmir vaxtaákvarðanir og hvort greiðslur til banka vegna vara­sjóða eigi rétt á sér.

Powell lýkur em­bættistíma sínum í maí 2026 og verður lík­lega ekki endur­skipaður en WSJ varar við því að hann verði fórnar­lamb nýrrar hefðar: að saksækja em­bættis­menn fyrir pólitísk ágreinings­mál. Það sé varasöm þróun í bandarísku lýðræði.