Yfirskattanefnd hefur úrskurðað um tæplega 15 milljóna króna heildarsekt vegna vantalinna tekna af útleigu einstaklings á húsnæði til ferðamanna á árunum 2016, 2017 og 2018. Þar af er sektin 11 milljónir til ríkissjóðs og 3,9 milljónir til borgarsjóðs Reykjavíkur.

Velti viðkomandi rétt tæplega 28,3 milljónum króna að mati skattyfirvalda, sem vænta megi að hafi komið til að stórum hluta af útleigu í gegnum deilisíður eins og Airbnb á þessum hápunkti ferðamannastraumsins til Íslands.

Var viðkomandi gefið að sök að hafa vanrækt að telja tekjur af húsnæðinu fram á skattfamtölum sínum, sem og að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattskýrslum og innheimtum virðisaukaskatti vegna seldrar þjónustu á árabilinu. Þannig hafi viðkomandi staðið skil á efnislega röngum skattframtölum umrædd ár.

Í úrskurðinum kemur nafn viðkomandi ekki fram, heldur einungis vísað til hans með bókstafnum A en af orðanna hljóðan má greina að um kvenmann er að ræða. Segir að bæði hún og fyrrverandi sambýlismaður hennar hafi misst vinnuna og því lent í fjárhagserfiðleikum en lán þeirra beggja hafi verið skráð á hana því hann hefði verið gjaldþrota.

Ásetningur eða í það minnsta stórkostlegt hirðuleysi

Henni var jafnframt gefið að sök, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, eins og þar stendur, að hafa vanrækt að tilkynna skattyfirvöldum um virðisaukaskattskylda starfsemi sína.

Eins og áður segir kemur metur rannsókn skattrannsóknarstjóra að vikomandi hafi verið með vanframtalda skattskylda veltu sem hafi numið samtals 28.282.990 krónum, en vanframtalinn útskattur hafi svo numið samtals 3.111.128 krónum.

Sundurliðað hafi veltan numið rétt tæplega 9,9 milljónum króna árið 2016, og útskatturinn það ár tæplega 1,1 milljón króna, árið 2017 hafi veltan numið tæplega 14,1 milljón og útskatturinn 1,5 milljónum króna, og loks 2018 hafi veltan numið 4,3 milljónum króna og útskatturinn 476 þúsund krónum.

Við skýrslutöku yfir viðkomandi vegna rannsóknarinnar voru lögð fyrir gjaldanda yfirlit yfir greiðslur inn á bankareikning hennar, en greiðslur þessar námu 10.987.667 kr. á árinu 2016, 15.600.441 kr. á árinu 2017 og 4.806.010 kr. á árinu 2018. Staðfesti gjaldandi að um væri að ræða greiðslur frá Airbnb vegna útleigu húsnæðis.