Samkeppniseftirlitið hefur lagt 1,4 milljarða króna sekt á Landsvirkjun vegna alvarlegra brota á samkeppnislögum. Niðurstaðan er afrakstur ítarlegrar rannsóknar sem náði til útboða Landsnets á árunum 2017 til 2021.
Samkvæmt ákvörðun eftirlitsins misnotaði Landsvirkjun markaðsráðandi stöðu sína með verðlagningu raforku í útboðum og gerði þannig keppinautum sínum ókleift að keppa til jafns. Þeir viðskiptavinir sem keyptu raforku af Landsvirkjun og tóku einnig þátt í útboðum gátu samkvæmt niðurstöðunni ekki selt raforkuna áfram nema með tapi.
Háttsemin dró úr möguleikum nýrra og smærri orkufyrirtækja til að festa sig í sessi á markaðnum. Samkeppniseftirlitið telur að þetta hafi unnið gegn hagsmunum bæði fyrirtækja og heimila sem njóta ávinnings af virku samkeppnisumhverfi
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir ákvörðunina hafa víðtæka þýðingu.
„Virk samkeppni á raforkumarkaði hefur úrslitaþýðingu fyrir samkeppnishæfni Íslands og hagsmuni þeirra sem hér búa. Ef rétt er á málum haldið getur virk samkeppni stuðlað að raforkuöryggi, flýtt fyrir orkuskiptum, hraðað öðrum nýjungum og tryggt okkur hagstætt raforkuverð til framtíðar litið.
Í þessu ljósi skiptir miklu máli hvernig stór og rótgróin raforkufyrirtæki, oftast í opinberri eigu, haga sinni starfsemi. Þessi ákvörðun fjallar um það,“ segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.
Ákvörðunin undirstrikar, að mati eftirlitsins, mikilvægi þess að stór og rótgróin orkufyrirtæki, sem eru að mestu í opinberri eigu, fari að samkeppnisreglum og stuðli að heilbrigðu viðskiptaumhverfi.