Norður­orka hf. hefur ákveðið að setja 4,54% eignar­hlut sinn í Skógar­böðum ehf. í opið sölu­ferli og býður áhugasömum fjár­festum að gera til­boð í hlutinn.

Skógar­böð ehf. heldur utan um sam­nefnt baðlón á Akur­eyri við rætur Vaðla­heiðar en félagið hagnaðist um 210 milljónir króna á árinu 2024 saman­borið við 153 milljóna hagnað árið 2023.

Hagnaður félagsins jókst því um 37% milli ára.

Einblína á kjarnastarfsemi

Skógar­böðin, sem opnuðu í maí 2022, hafa á skömmum tíma orðið einn vinsælasti áfangastaður ferða­manna á Norður­landi.

Á síðasta ári sóttu um 150 þúsund gestir baðlónið og veltan nam tæpum milljarði króna.

Eyþór Björns­son for­stjóri Norður­orku segir að félagið hafi verið stolt af því að koma að upp­byggingu Skógar­baða, en starf­semi Norður­orku snúi fyrst og fremst að rekstri veitna við Eyja­fjörð og í Fnjóska­dal.

Þar sem frekari upp­bygging, þar á meðal bygging hótels, sé fyrir­huguð við Skógar­böðin, hafi stjórn Norður­orku ákveðið að selja hlut sinn og ein­beita sér að kjarna­starf­semi félagsins.

Hluturinn vel yfir 100 milljóna virði

Ein breyting varð á hlut­haf­alista Skógar­baða í fyrra. Höldur – baðfélag ehf., systur­félag Hölds – Bíla­leigu Akur­eyrar, seldi 10% hlut sinn í Skógar­böðum fyrir 290 milljónir króna sam­kvæmt árs­reikningi félagsins.

Sölu­hagnaður Hölds – baðfélags nam 240 milljónum króna.

Miðað við ofan­greint var virði Skógar­baða ehf. metið á 2,9 milljarða króna í við­skiptunum.

Sé miðað við þessi við­skipti má áætla að hlutur Norður­orku sé metinn á að minnsta kosti 131 milljónir króna.

Velta Skógar­baða jókst um 200 milljónir króna, eða 25,4%, milli ára og nam 987 milljónum króna í fyrra.

Rekstrar­gjöld jukust um 25,3% og námu 676 milljónum. Þar af voru laun og tengd gjöld 331 milljón en árs­verk voru 28, saman­borið við 25 árið áður.

Rekstrar­hagnaður (EBIT) félagsins fór úr 247 milljónum í 311 milljónir króna milli ára.

Eignir Skógar­baða ehf. voru bók­færðar á 1,5 milljarða króna í árs­lok 2024, en þar af voru fast­eignir félagsins metnar á 1,2 milljarða. Eigið fé var um 831 milljón og langtíma­skuldir 348 milljónir.