Fjármálafólk sem ákvað að flýja Hong Kong vegna strangra sóttvarnatakmarka á í miklum vandræðum með að finna laus pláss fyrir börnin sín í vinsælustu einkaskólunum í Singapúr. Starfsfólk alþjóðlegra fyrirtækja í Hong Kong hugsar sig nú tvisvar um áður en stokkið er á flutninga til annarra fjármálaborga.

Alþjóðlegir skólar í Singapúr tjáðu breska dagblaðinu Financial Times að þeir hefðu fengið margfalt fleiri fyrirspurnir en í venjulegu árferði og geta því ekki annað eftirspurninni.

Mörg alþjóðleg fjármálafyrirtæki á borð við JPMorgan og Bank of America hafa íhugað að flytja starfsfólk þar sem takmarkanir á landamærum og strangar sóttvarnatakmarkanir gera það að verkum að nær ómögulegt er fyrir starfsfólk að ferðast frá borginni til að hitta viðskiptavini. Langir biðlistar í singapúrskum skólum flækja þó þessi áform.

Óhagnaðardrifna grunnskólanum Tanglin Trust Scholl, sem er í Singapúr, bárust jafnmargar umsóknir í janúar og febrúar og á öllu síðasta ári. Forstjóri skólans segir að fyrir hvert pláss í skólanum sýni fimmtán fjölskyldur áhuga. Skólinn er með 2.800 nemendur og tekur um 4,5 milljónir króna í árleg gjöld.

Annar alþjóðlegur grunnskóli í Singapúr með 3.200 nemendur hefur fengið sjöfalt fleiri fyrirspurnir í ár heldur en á seinni helmingi síðasta árs. Allt að tíu fjölskyldur eru á eftir hverju skólasæti í ákveðnum aldurshópum.