Aðgerðir breskra stjórnvalda til að auka tekjur ríkissjóðs með hærri fjármagnstekjuskatti hafa haft þveröfug áhrif: Skatttekjur drógust saman um 18% á síðasta fjárlagaári og námu 12,1 milljarði punda, þrátt fyrir að frítekjumarkið hafi verið helmingað úr 12.300 pundum í 6.000 pund.
Bráðabirgðatölur fyrir árið 2024–25, sem byggðar eru á mánaðarlegum innborgunum, benda til frekari 10% lækkunar, samkvæmt gögnum frá bresku skattayfirvöldunum HMRC en Financial Timesgreinir frá.
„Þetta er klassískt dæmi um þegar stjórnvöld hækka skatta í von um meiri tekjur – og sitja eftir með minna til skamms tíma,“ sagði Sarah Coles, sérfræðingur hjá Hargreaves Lansdown. Hún telur líklegt að margir fjárfestar haldi nú aftur af sér og fresti sölu eigna.
Fjármagnstekjuskattur er lagður á hagnað við sölu eigna eins og fasteigna, hlutabréfa og fyrirtækja. Þar sem skatturinn fellur aðeins til við sölu geta einstaklingar valið að bíða með að selja til að forðast greiðsluskyldu. Fjármálaráðgjafar segja fjárfesta sífellt frekar bíða eftir pólitískum stöðugleika.
Frítekjumarkið var aftur helmingað í £3.000 frá og með fjárlagaárinu 2024–25. Þá hækkaði fjármálaráðherrann Rachel Reeves skatthlutfallið í fjárlögum sínum síðastliðið haust; úr 10–28% í 18–32%, eftir tekjuflokkum.
Þrátt fyrir þessar aðgerðir hefur ríkissjóður ekki séð vaxandi tekjur. Skatttekjur vegna fjármagnstekna lækkuðu úr 14,5 milljörðum punda í 13,1 milljarð samkvæmt nýjustu bráðabirgðatölum.
Athygli vekur að eignasala fasteignaeigenda jókst um 28%, sem skilaði 33% aukningu í tengdum skatttekjum, samtals 2,2 milljörðum punda. Skýringar felast í erfiðleikum á leigumarkaði og ótta íbúðareigenda við frekari skattahækkanir.
Þá greindu 2.770 stjórnendur í einkafjárfestingum frá 3,3 milljörðum punda í hagnað, með 871 milljón punda í skattgreiðslur.
Takmarkað svigrúm fjármálaráðherra
Reeves stendur frammi fyrir 20–30 milljarða punda gati í fjárlögum haustsins, eftir að hætt var við umfangsmiklar niðurskurðaráætlanir. En svigrúm hennar til frekari skattahækkana er takmarkað, þar sem Verkamannaflokkurinn hefur heitið því að hækka ekki tekjuskatt, virðisaukaskatt eða tryggingagjöld.
Gagnrýnendur vara við því að of þröng skattlagning á ákveðna tekjuflokka geti haft letjandi áhrif og þannig dregið enn frekar úr skatttekjum.
Fjármálaráðuneytið: Ekki óeðlileg lækkun
Talsmaður fjármálaráðuneytisins sagði í yfirlýsingu að tekjur ársins 2023–24 endurspegli stefnu fyrri ríkisstjórnar og að fjármagnstekjur undanfarinna ára hafi verið óvenju háar, sérstaklega í kjölfar heimsfaraldurs.
Tekjufallið nú sé því að hluta til viðsnúningur í eðlilegt horf – frekar en bein afleiðing skattastefnu núverandi ríkisstjórnar.