Bensínverð á Íslandi er fyrst og fremst ákvarðað af sköttum og gjöldum en ekki eingöngu af heimsmarkaðsverði eldsneytis.
Þetta kemur fram í nýrri greiningu Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) sem gagnrýna ASÍ fyrir að rangtulka gögn og fullyrða íslenskir neytendur njóti ekki ávinnings af lækkandi heimsmarkaðsverði.
Samkvæmt greiningunni eru í dag innheimtir skattar og gjöld á borð við almennt og sérstakt bensíngjald, kolefnisgjald og virðisaukaskatt sem nema alls 135 krónum á hvern lítra.
Miðað við dæluverð upp á 290 krónur þýðir það að um 42% verðsins er fastur kostnaður sem breytist ekki þó að heimsmarkaðsverð sveiflist.
„Stór hluti bensínverðs á Íslandi er fastur og ákvarðaður af Alþingi í formi skatta og gjalda – almennt og sérstakt bensíngjald, kolefnisgjald og virðisaukaskattur. Þessir liðir nema í dag 135 kr. á hvern bensínlítra. Sé miðað við að íblöndun sé um 10% af bensínlítranum þá nema skattar og gjöld 42% af dæluverði hvers lítra og breytast ekki þó heimsmarkaðsverð breytist *. Þvert á móti eykst hlutur ríkisins í % af dæluverði ef innkaupsverð eldsneytis lækkar.“
í greiningu SVÞ kmeur fram að nær allt innflutt bensín hefur komið frá Noregi, ekki New York höfn.
Af upplýsingum frá Hagstofu Íslands má leiða að innflutningsverð á blýlausu bensíni frá Noregi í íslenskum krónum lækkaði um 3,5% frá janúar til júní á þessu ári.
Það styður illa þá fullyrðingu að lækkunin hafi numið 13,7% vegna styrkingar krónunnar, eins og m.a. Alþýðusamband Íslands hefur haldið fram.
„Það vekur sérstaka athygli að útreikningar ýmissa aðila, þ. á m. ASÍ, virðist ekki taka mið af gögnum sem liggja fyrir, eru birt opinberlega og endurspegla raunverulegan innlendan kostnað.“
Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ, segir mikilvægt að umræðan um verðlagningu byggist á réttum upplýsingum.
„Það gerist reglulega og er hluti af veruleika atvinnurekenda og neytenda að þráttað sé um verðlagningu og örugglega er slík umræða holl m.t.t. samkeppni. Eigi umræðan að vera til framdráttar hlýtur hins vegar að vera lykilatriði að byggt sé á haldgóðum gögnum. Af upplýsingum sem Hagstofan birtir sést að bensín á Íslandi hefur nær alfarið verið flutt inn frá Noregi og af þeim má einnig leiða að innkaupsverð í íslenskum krónum lækkaði um 3,5% frá janúar til og með júní – sem styður ekki 13,7% lækkun vegna gengisáhrifa eins og gefið hefur verið til kynna. Ef horft er fram hjá slíkum gögnum verður niðurstaðan varla rétt. Við teljum mikilvægt fyrir umræðuna að miðað sé við haldbærar upplýsingar,“ segir Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ.