Skel fjárfestingarfélag hefur náð samkomulagi um kaup á 50 íbúðum við Stefnisvog 12 í Reykjavík fyrir 4,7 milljarða króna, að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Skel var með kauprétt að 35 íbúðum í fasteigninni, samkvæmt samningi frá september sl. Fjárfestingarfélagið tilkynnti eigandanum Stefnisvogi ehf., félags í eigu Reir ehf., um nýtingu kaupréttarins auk þess sem samið var um að kaup á 15 íbúðum til viðbótar.

Samtals kaupir Skel því 50 íbúðir sem eru samanlagt 5.534 fermetrar fyrir 4,7 milljarða. Það jafngildir 850 þúsund krónur á fermetra.

Áætlað er að íbúðirnar verði afhentar á fjórða ársfjórðungi 2024. Skel mun bjóða umræddar íbúðir til langtímaleigu í gegnum leigumiðlara.

Hafa nú keypt 105 íbúðir fyrir nærri tíu milljarða

Skel fjárfestingarfélag festi kaup á 55 íbúðum við Stefnisvog 2 fyrir 4,9 milljarða króna í september síðastliðnum auk þess að semja um ofangreindan kaupauka. Í tilkynningunni kemur fram að allar eignir sem félagið hefur þegar keypt hafa verið leigðar út.

Með viðbótinni sem tilkynnt var um í dag hefur Skel keypt 105 íbúðir við Stefnisvog 2 og 12. Samanlagt kaupverð nemur um 9,6 milljörðum króna.

Félagið Reir ehf. er móðurfélag Stefnisvogs ehf og Stefnisvogs 2 ehf., seljanda í viðskiptunum. Reir er í 86% eigu hjónanna Hilmars Þórs Kristinssonar og Rannveigar Eirar Einarsdóttur.

Stefnisvogur 2 er fjölbýlishús í vogabyggð. Mynd tekin af heimasíðu framkvæmdaaðilans Reir Verks.

Afhenda alla eignarhluti í Reir Þróun

Hluti kaupverðs fyrir í viðskiptunum sem tilkynnt var um í dag verður greiddur með afhendingu hlutafjár og hluthafalána í Reir þróun ehf. að fjárhæð 726 milljónir króna. Reir þróun var stofnað árið 2022 af Skel og Fasta, félags í eigu Hilmars Þórs og Rannveigar Eirar.

Að loknu uppgjöri viðskiptanna verður Skel búið að afhenda alla eignarhluti í og hluthafalán til Reir Þróunar í skiptum fyrir fullbúnar íbúðir, að því er kemur fram í tilkynningunni.

„Með þessum viðskiptum eignast Skel fyrnanlega eign upp á um 3.800 m.kr. og getur þannig frestað tekjuskatti sem hefur verið færður í bókum félagsins og hefði að öðrum kosti hefði komið til greiðslu á árinu 2025.“

Fjárfesting Skeljar í íbúðarhúsnæði er í samræmi við stefnu fjárfestingarfélagsins að gera hluti af eignasafni þess seljanlegra, að því er kemur fram í ávarpi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, stjórnarformanns Skeljar, í ársskýrslu félagsins.