Borgaryfirvöld hafa hafnaði beiðni Sorpu um að fá tímabundin afnot af lóð hverfastöðvar Breiðholts við Jafnasel 1 og 3 undir endurvinnslustöð. Þetta kemur fram í nýjustu fundargerð Borgarráðs en á honum var tillaga Heiðu Bjargar Hilmisdóttur borgarstjóra um að hafna beiðninni samþykkt.

Sorpa óskaði eftir þessu eftir að ljóst var endurvinnslustöðinni við Dalveg í Kópavogi yrði lokað. Hún átti að loka í september í fyrra en samkomulag náðist við bæjaryfirvöld að fresta lokuninni um eitt ár. Hún mun því loka núna í september. Ný endurvinnslustöð í Kópavogi verður í Glaðheimasvæðinu en hún verður ekki komin í gagnið fyrr en eftir tvö til fjögur ár. 

Sorpa hefur um árabil rekið endurvinnslustöð við Jafnasel 8 en forsvarsmenn Sorpu telja að sú stöð sé þegar við þolmörk, þess vegna óskuðu þeir eftir tímabundnum afnotum af lóðinni við Jafnasel 1 og 3.

Þar hefur hverfastöð Breiðholts verið en hún er á förum. Vildi Sorpa tengja lóðirnar tvær og stækka þannig stöðin við Jafnasel til að bregðast við lokunni á Dalvegi og brúa bilið þar til ný stöð á Glaðheimasvæðinu í Kópavogi verður lokuð.

Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sorpu, sendi borgaryfivöldum erindi vegna málsins fyrr á árinu. Þar segir meðal annars:

Þegar endurvinnslustöðin við Dalveg í Kópavogi lokar þann 1. september 2025 telja stjórnendur SORPU verulegar líkur á því að það muni hafa í för með sér röskun á þjónustu við íbúa Reykjavíkur, sérstaklega í Breiðholti. Þeir gestir SORPU sem áður hafa nýtt sér endurvinnslustöðina við Dalveg koma líklega til með að nýta þær stöðvar sem eru í stystri fjarlægð frá stöðinni við Dalveg, það er að segja stöðina við Jafnasel og á Sævarhöfða.

Eins og áður sagði höfnuðu borgaryfirvöld þessari beiðni. Telja borgaryfirvöld að þó til standi að flytja hverfastöðina sé ekki raunhæft að gera það með svo skömmum fyrirvara. Hverfastöðin mun ekki flytja frá Jafnaseli fyrr en reist hefur verið ný stöð, sem sameina mun hverfastöðina Jafnaseli og Þjónustumiðstöðina við Stórhöfða. Verður það í fyrsta lagi eftir 2-3 ár.

Hafa borgaryfirvöld meðal annars bent Sorpu á að kanna hvort hægt sé að taka á leigu hluta af lóð og fasteignum í Jafnaseli 6 sem eru í einkaeigu til stækkunar á núverandi umráðasvæði.

Að óbreyttu stefnir í að í staðin fyrir að íbúar höfuðborgarsvæðsins hafi aðgang að sex endursvinnslustöðvum verði þær einungis fimm. Líklegt er að staðan verði þannig í allt að þrjú ár.

Endurvinnslustöðin við Sævarhöfða mun loka á næsta ári þegar ný stöð við Lambhagaveg verður tekin í notkun.