Ummæli um aðila, í tölvupósti til þriðja aðila, geta orðið grundvöllur til höfðunar meiðyrðamáls. Ekki er nauðsynlegt að þau hafi birst opinberlega til að til þess geti komið. Þetta er aðeins eitt áhugaverðra atriða sem lesa má úr niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli eCommerce 2020 ApS gegn Breka Karlssyni, formanni Neytendasamtakanna, og samtökunum sjálfum.
Dómur í málinu var kveðinn upp fyrir síðustu mánaðamót en birtur á vef dómstólanna í upphafi viku. Í málinu krafðist eCommerce þess að fern ummæli Breka, sem komu fram í tölvupósti sem hann sendi á félag sem var í vipskiptasambandi við eCommerce, yrðu dæmd dauð og ómerk. Þá var einnig krafist miskabóta og kostnað við birtingu dómsins.
Ummælin fjögur verða ekki rakin frekar hér en þar var undir hin margtuggna ella um muninn milli gildisdóma og staðhæfinga um staðreyndir. Ekki þarf mikla yfirlegu til að komast að þeirri niðurstöðu að þar hafi verið staðhæft af hálfu Breka að eCommerce hefði gerst brotlegt við lög á Íslandi og að því hefði verið slegið föstu bæði af dómstólum og Neytendastofu.
Í niðurstöðu dómsins sagði meðal annars að ummælunum kæmi „ekkert fram sem skilgreina mætti sem skoðun bréritara eða mat hans“ og að fullyrt væri að lánin væru ólögmæt. Dómurinn féllst því ekki á að í ummælunum væri nokkuð að finna sem gæti talist gildisdómur og féllu ummælin á því. Breki hefði í raun borið út aðdróttanir um félagið gegn betri vitund.
Bréfasendingar nútímans
Það er hins vegar athyglisvert að umþrætt ummæli höfðu hvergi birst opinberlega. Þau voru send af Breka til félaganna Quickpay ApS og Clearhouse A/S en glöggir lesendur sjá að þar eru ekki á ferð eCommerce. Síðastnefnda félagið fékk hins vegar veður af þeim og ákvað að höfða málið.
Alltítt er á Íslandi að meiðyrðamál séu höfðuð vegna ummæla sem hafa birst opinberlega, til að mynda í dagblöðum, sjónvarpi eða stöðuuppfærslum á samfélagsmiðlum. Öllu sjaldgæfara er undir séu ummæli í tölvuskeytum, hvað þá til þriðja aðila sem ekki á aðild að málinu.
Eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst var við aðalmeðferð málsins vísað til dómafordæma, frá því snemma á síðustu öld, þar sem komist hafði verið að þeirri niðurstöðu að ummæli í persónulegum bréfum gætu verið dæmd dauð og ómerk. Tölvupóstar væru í raun sama eðlis og slík bréf og því mætti jafna því saman. Gera má sér í hugarlund að hið sama kunni að gilda um skilaboð á samfélagsmiðlum.
Birtingarháttur annar en áður
Þegar kom að bótakröfu eCommerce var niðurstaða dómsins einnig áhugaverð. Í fyrsta lagi var miskabótakröfu félagsins hafnað þrátt fyrir að dómurinn féllist á að ummæli Breka kynnu að skilja eftir sig ör á orðspori félagsins.
„Orðspor fyrirtækja er þeim mikilsvert eins og góður orðstír er sérhverjum manni. Fyrirtæki hafa hins vegar ekki sálarlíf og tilfinningar. Því fellst dómurinn ekki á að þótt orðspor fyrirtækis sé rýrt með ummælum geti það valdið því sársauka og þjáninum, það er að segja miska,“ segir í dóminum. Þá var einnig bent á að ákvæði skaðabótalaga um miskabætur virtist, samkvæmt orðanna hljóðan, aðeins taka til fólks en ekki fyrirtækja.
Kröfu um kostnað af dómsbirtingu var einnig hafnað þótt að slíkt væri margdæmt í dómaframkvæmd. „Í samræmi við fyrirmæli dómstólasýslunnar verður dómurinn birtur á vefsíðu dómstólanna. Það er alkunna að blaðamenn leita þar fanga. Birting dómsniðurstöðu um ómerkingu ummæla í fjölmiðli er ekki eins áríðandi nú eins hún kann að hafa verið þegar dómar voru gefnir út í bók og birtust mörgum árum eftir að þeir voru kveðnir upp,“ segir í niðurstöðu dómsins.
Málskostnaður milli aðila var látinn falla niður.