Frumvarp Willums Þórs Þórssonar, heilbrigðisráðherra, um stjórn Landspítala var til umræðu á Alþingi í gærkvöldi. Með frumvarpinu á að setja á stofn stjórn yfir Landspítala sem gegni því hlutverki að tryggja frekari faglegan rekstur hans.
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vakti athygli á því sem hann taldi að einhverju leyti ágalla á frumvarpinu í ræðu í þinginu. Þar lýsti hann áhyggjum af því að skilyrðin, sem frumvarpið setti stjórnarmönnum, gætu verið til þess fallin að að gera einstaklingum sem eftirsóknarvert væri að sætu í stjórn Landspítalans það ókleift vegna þeirra krafna sem þar væru settar fram.
Þá nefndi hann að samkvæmt frumvarpinu hafi stjórn spítalans ekkert boðvald yfir forstjóranum. „Slíkt mun draga úr gildi stjórnarinnar og í rauninni verður ekki annað séð en það gangi gegn þeim markmiðum sem við erum að reyna að ná fram." Rök væru með því að ráðherra myndi eingöngu skipa stjórn sem hefði þá það hlutverk að ráða forstjóra. „Ég hygg að það skipti verulega miklu máli að stjórn spítalans, sem á að bera ábyrgð á rekstri og skipulagi Landspítalans gagnvart ráðherra og þinginu, hafi það umboð og þá skyldu að ráða til þess forstjóra sem beri ábyrgð gagnvart stjórn."
Áheyrnarfulltrúar starfsmanna
Að lokum vakti hann athygli á því að ekki gangi upp að tveir fulltrúar starfsmanna í stjórninni séu kallaðir stjórnarmenn en hafi ekki atkvæðisrétt. Verði þessum fulltrúum ekki veittur atkvæðisréttur færi betur á því að ganga beint til verka og og segja starfsmenn spítalans hafa tvo áheyrnarfulltrúa, sem þeir þó sannarlega eru. „Sé talið nauðsynlegt að fulltrúar starfsmanna sitji í stjórn spítalans þá þurfi að stíga skrefið til fulls, þeir stjórnarmenn þurfi þá ekki bara að hafa málfrelsi og tillögurétt heldur líka fullan atkvæðisrétt."
Heilbrigðisráðherra sagði fulltrúa starfsmanna ekki hafa atkvæðisrétt í ljósi þess að þeir séu hugsaðir sem fagleg rödd inni í umræðu stjórnarinnar. „Það gæti hins vegar orðið snúið ef við leggjum þá ábyrgð á þessa tvo fulltrúa að greiða atkvæði því það væri ekki endilega eining um það á vinnustaðnum," sagði Willum Þór.