Síð­degis í gær réðst byssumaður inn í eina þekktustu skrif­stofu­byggingu New York, 345 Park Avenu­e, þar sem meðal annars höfuðstöðvar fjár­festinga­fyrir­tækisins Black­stone og bandarísku NFL-deildarinnar eru til húsa.

Fjórir létust í árásinni, þar á meðal starfsmaður Blackstone áður en árásar­maðurinn framdi sjálfs­víg.

Lögregla rann­sakar nú málið en að sögn lög­reglu­stjóra New York-borgar, Jessicu Tisch, var lög­reglu til­kynnt um skot­hvelli í byggingunni um klukkan hálf sjö að staðartíma.

Samkvæmt Financial Times var árásar­maðurinn, 27 ára gamall maður að nafni Shane Tamura, kom akandi til borgarinnar frá Las Vegas fyrr sama dag. Hann gekk inn í and­dyri turnsins vopnaður riffli og skaut þar fjóra ein­stak­linga til bana, þar á meðal lög­reglu­mann og öryggis­vörð.

Eftir skot­hríðina fór hann með lyftu upp á 33. hæð, þar sem hann skaut enn einn mann og síðan sjálfan sig. Þar eru skrif­stofur fast­eignafélagsins Ru­din Mana­gement, eig­anda byggingarinnar.

Starfs­maður Black­stone er meðal látinna

Meðal hinna látnu er lög­reglu­maðurinn Didar­ul Islam, 36 ára faðir tveggja barna. Hann starfaði sem auka­varsla fyrir bygginguna sam­kvæmt samningi sem gerir fyrir­tækjum kleift að ráða lög­reglu­menn utan vaktatíma.

Einnig lést starfs­maður Black­stone sam­kvæmt heimildum FT. Nöfn annarra fórnar­lamba hafa ekki verið birt.

Fimmti ein­stak­lingurinn sem var skotinn er enn í lífs­hættu á sjúkra­húsi.

Starfs­fólk lokaði sig inni á skrif­stofum

Svæðið í kringum bygginguna var rýmt og girt af. Lög­reglu­menn voru á vett­vangi milli 52. og 54. götu, og frá Lexington Avenu­e að Madi­son Avenu­e. Þyrlur sveimuðu yfir svæðinu meðan að­gerðir stóðu yfir.

Starfs­fólk fyrir­tækjanna í turninum lýsir mikilli óvissu og ótta meðan á árásinni stóð.

Starfs­menn KPMG, sem einnig eru með skrif­stofur í byggingunni, lokuðu sig inni á skrif­stofum, lögðu skrif­borð fyrir hurðir og huluðu glugga með teppum.

„Við gátum ekkert annað en að halda okkur niðri og bíða. Við fengum skila­boð frá KPMG um að láta vita ef við þyrftum hjálp,“ sagði Jon Fer­rer, endur­skoðandi hjá KPMG.

Black­stone sendi starfsmönnum sínum einnig skila­boð og bað þá að halda sig inni á skrif­stofum sínum.

Margir voru fastir inni í rúm­lega klukku­stund á meðan lögregla leitaði að skot­manninum og tryggði öryggi byggingarinnar.

Vekur óhug í við­skiptalífinu

Árásin hefur vakið upp óhug innan við­skiptalífsins í New York, sem enn hefur ný­legt dæmi í minni: þegar yfir­maður United­Health var skotinn á leið á fjár­festa­fund í Mid­town seint á síðasta ári.

„Hjörtu okkar eru með fjöl­skyldum fórnar­lambanna,“ sagði borgar­stjóri New York, Eric Adams, og bætti við að yfir­völd væru enn að vinna úr því sem átti sér stað.

Tisch lög­reglu­stjóri sagði að ekkert benti til að fleiri væru viðriðnir árásina og að al­menningur væri ekki í beinni hættu. Enn er unnið að því að upp­lýsa hver mark­mið árásar­mannsins voru og hvers vegna hann valdi ein­mitt þessa byggingu sem vett­vang.