Síðdegis í gær réðst byssumaður inn í eina þekktustu skrifstofubyggingu New York, 345 Park Avenue, þar sem meðal annars höfuðstöðvar fjárfestingafyrirtækisins Blackstone og bandarísku NFL-deildarinnar eru til húsa.
Fjórir létust í árásinni, þar á meðal starfsmaður Blackstone áður en árásarmaðurinn framdi sjálfsvíg.
Lögregla rannsakar nú málið en að sögn lögreglustjóra New York-borgar, Jessicu Tisch, var lögreglu tilkynnt um skothvelli í byggingunni um klukkan hálf sjö að staðartíma.
Samkvæmt Financial Times var árásarmaðurinn, 27 ára gamall maður að nafni Shane Tamura, kom akandi til borgarinnar frá Las Vegas fyrr sama dag. Hann gekk inn í anddyri turnsins vopnaður riffli og skaut þar fjóra einstaklinga til bana, þar á meðal lögreglumann og öryggisvörð.
Eftir skothríðina fór hann með lyftu upp á 33. hæð, þar sem hann skaut enn einn mann og síðan sjálfan sig. Þar eru skrifstofur fasteignafélagsins Rudin Management, eiganda byggingarinnar.
Starfsmaður Blackstone er meðal látinna
Meðal hinna látnu er lögreglumaðurinn Didarul Islam, 36 ára faðir tveggja barna. Hann starfaði sem aukavarsla fyrir bygginguna samkvæmt samningi sem gerir fyrirtækjum kleift að ráða lögreglumenn utan vaktatíma.
Einnig lést starfsmaður Blackstone samkvæmt heimildum FT. Nöfn annarra fórnarlamba hafa ekki verið birt.
Fimmti einstaklingurinn sem var skotinn er enn í lífshættu á sjúkrahúsi.
Starfsfólk lokaði sig inni á skrifstofum
Svæðið í kringum bygginguna var rýmt og girt af. Lögreglumenn voru á vettvangi milli 52. og 54. götu, og frá Lexington Avenue að Madison Avenue. Þyrlur sveimuðu yfir svæðinu meðan aðgerðir stóðu yfir.
Starfsfólk fyrirtækjanna í turninum lýsir mikilli óvissu og ótta meðan á árásinni stóð.
Starfsmenn KPMG, sem einnig eru með skrifstofur í byggingunni, lokuðu sig inni á skrifstofum, lögðu skrifborð fyrir hurðir og huluðu glugga með teppum.
„Við gátum ekkert annað en að halda okkur niðri og bíða. Við fengum skilaboð frá KPMG um að láta vita ef við þyrftum hjálp,“ sagði Jon Ferrer, endurskoðandi hjá KPMG.
Blackstone sendi starfsmönnum sínum einnig skilaboð og bað þá að halda sig inni á skrifstofum sínum.
Margir voru fastir inni í rúmlega klukkustund á meðan lögregla leitaði að skotmanninum og tryggði öryggi byggingarinnar.
Vekur óhug í viðskiptalífinu
Árásin hefur vakið upp óhug innan viðskiptalífsins í New York, sem enn hefur nýlegt dæmi í minni: þegar yfirmaður UnitedHealth var skotinn á leið á fjárfestafund í Midtown seint á síðasta ári.
„Hjörtu okkar eru með fjölskyldum fórnarlambanna,“ sagði borgarstjóri New York, Eric Adams, og bætti við að yfirvöld væru enn að vinna úr því sem átti sér stað.
Tisch lögreglustjóri sagði að ekkert benti til að fleiri væru viðriðnir árásina og að almenningur væri ekki í beinni hættu. Enn er unnið að því að upplýsa hver markmið árásarmannsins voru og hvers vegna hann valdi einmitt þessa byggingu sem vettvang.