Trefjar skrifuðu á dögunum undir samning um smíði á nýjum björgunarbáti fyrir Björgunarsveit Hafnarfjarðar. Báturinn er af gerðinni Cleopatra 32 og er hann sérhannaður til björgunarstarfa af ýmsu tagi.

Heildarlengd bátsins er 10.4 m og er hann 3,4 m á breidd. Áætlaður ganghraði bátsins er yfir 30 sjómílur og drægni er um 120 – 180 sjómílur.

„Hönnun bátsins er byggð á áralangri reynslu Trefja við smíði vinnubáta af ýmsu tagi. Endanlega útfærsla var svo gerð í nánu samstarfi við sjóbjörgunarteymi Björgunarsveitar Hafnarfjarðar,“ segir Högni Bergþórsson, framkvæmdastjóri sölu og þróunar hjá Trefjum.

Báturinn er smíðaður eftir Norðurlandareglum sem gerðar eru fyrir báta af þessari gerð. Hann uppfyllir jafnframt íslenskar sérkröfur um björgunarbáta sem gerðir eru út frá landi Við hönnun bátsins var tekið mið af þörfum íslenskra björgunarsveita að sögn Högna.

„Auðvelt er að koma fyrir 10-12 manns fyrir í sætum í bátnum. Opið afturdekk gerir björgun upp úr sjó auðveldari. Báturinn verður með handhægar dælur um borð til að sinna dælingum ef þörf krefur. Sérstakt tillit er tekið til krafna varðandi sjálfréttingu og taka vélbúnaður og loftinntök bátsins mið af því. Stöðugleikagögn eru gerð til samræmis,“ segir hann.

Nýi björgunarbáturinn sem Trefjar smíða fyrir Björgunarsveit Hafnarfjarðar.
© Aðsend mynd (AÐSEND)