„Ég er mjög spenntur. Ég starfaði áður sem viðskiptablaðamaður í fimm ár og líkaði það mjög vel,“ segir Gísli Freyr Valdórsson, nýr fréttastjóri viðskiptadeildar Morgunblaðsins. Hann hefur á síðastliðnum fimm árum starfað sem ráðgjafi hjá KOM ráðgjöf. „Þegar þetta tækifæri kom upp fannst mér það þess virði að grípa. Það hefur verið mjög skemmtilegt að vinna hjá KOM síðustu árin, ég hef unnið að fjölbreyttum og skemmtilegum verkefnum."
Samhliða störfum sínum hjá KOM hefur Gísli einnig sinnt starfi ritstjóra Þjóðmála, tímarits um stjórnmál og menningu. Tímaritið kemur út fjórum sinnum á ári, en fyrir um ári kom fyrsti þáttur hlaðvarpsins Þjóðmála út. Hlaðvarpið hefur vakið mikla lukku og segist Gísli ætla að halda áfram að gefa út hlaðvarpsþætti, samhliða ritstjórastörfunum.
Gísli hefur staðið að bókaútgáfu með eiginkonu sinni, Rakel Lúðvíksdóttur, ásamt Stefáni Einari Stefánssyni, fyrrum viðskiptaritstjóra Morgunblaðsins, og eiginkonu hans Söru Lind Guðbergsdóttur. Um er að ræða bókaflokk sem heitir Litla fólkið og stóru draumarnir, en höfundur bókanna er rithöfundurinn Maria Isabel Sánchez Vegara. „Þetta eru ævisögur einstaklinga sem hafa áorkað miklu í lífinu, þvert gegn væntingum." Sex titlar hafa komið út og eru aðrir sex væntanlegir, en stuttu fyrir jól keypti Brim þrjú þúsund eintök af bókunum og gaf öllum grunn- og leikskólum landsins.
Gísli og Rakel, sem er kennari í Árbæjarskóla, eiga einn strák og tvær stelpur og búa þau í Grafarholti. Íþróttirnar taka mikinn tíma í lífi fjölskyldunnar, að sögn Gísla. „Við erum mjög samheldin fjölskylda og okkur finnst rosalega gaman að ferðast innanlands og kanna nýja staði."
Hann segist vera að fikra sig áfram í veiði. „Ég hef aðeins verið í skotveiði og þykist vilja verða stangveiðimaður líka. Ég hafði alltaf efasemdir um að mér myndi finnast það skemmtilegt, en þegar ég prófaði fannst mér það geggjað." Hann viðurkennir að pólitíkin flokkist einnig undir áhugamál hjá honum. „Ég segi stundum að pólitíkin er ekki bara baktería, hún er vírus. Maður losnar ekki við hana."
Nánar er rætt við Gísla í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .