Seðlabanki Íslands kynnti í gær ákvörðun peningastefnunefndar um að hækka stýrivexti um 0,75 prósentur og eru þeir því 2,75% eftir hækkunina. Um er að ræða mestu stýrivaxtahækkun frá árinu 2008 og hlutfallslega mestu hækkun frá upphafi, en nafnvextir eru nú þeir sömu og fyrir heimsfaraldur þótt raunvextir séu umtalsvert lægri, eða neikvæðir um u.þ.b. 3% samanborið við naumlega jákvæða raunvexti fyrir faraldur. Benti Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á að raunaðhald peningastefnunnar væri því enn talsvert lausara en fyrir tveimur árum.

Greiningaraðilar á markaði höfðu gert ráð fyrir vaxtahækkun í ljósi vaxandi verðbólgu, en hún mældist 5,7% í janúar síðastliðnum og hefur ekki mælst hærri í tæpan áratug. Er þróunin hérlendis í takt við það sem sést hefur erlendis, en helstu viðskiptalönd Íslands hafa einnig þurft að glíma við verðbólgu sem ekki hefur sést í áraraðir. Hérlendis hefur verðbólgan fyrst og fremst verið keyrð áfram af hærra innflutningsverði, hækkun fasteignaverðs og launahækkunum.

Verðbólga yfir markmiði út 2024

Á vaxtaákvörðunarfundi Seðlabankans kom fram að búist væri við heldur minni hagvexti í helstu viðskiptalöndum Íslands en spáð hafði verið fyrir um áður. Hins vegar væru merki um að farið væri að draga úr áhrifum þeirra alvarlegu framleiðsluhnökra sem hafi verið dragbítur á efnahagsbata í kjölfar heimsfaraldursins og leitt til mikilla hækkana á verði hrávara.

Þrátt fyrir alþjóðlegar áskoranir jókst innlend eftirspurn til muna á síðasta ársfjórðungi og gerir Seðlabankinn ráð fyrir að hagvöxtur síðasta árs hafi numið 4,9%, sem er um einu prósenti umfram fyrri spár. Hins vegar hafi þróun heimsfaraldursins í upphafi þessa árs valdið því að hagvaxtarspá hafi verið endurskoðuð fyrir árið. Er nú búist við 4,8% hagvexti á þessu ári í stað 5,1%.

Gert er ráð fyrir að verðbólga muni haldast yfir 5% fram eftir þessu ári og verði ekki komin undir 4% fyrr en í byrjun næsta árs. Seðlabankinn býst við því að verðbólga verði enn yfir markmiði í árslok 2024, en Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, hafði frekar áhyggjur af því að verðbólga væri vanmetin í spánni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .