Kaup­höllin í Lundúnum (LSEG) er að skoða hvort skyn­sam­legt sé að hefja við­skipti með hluta­bréf allan sólar­hringinn, að því er fram kemur í frétt Financial Times.

Þetta er hluti af vaxandi þróun á mörkuðum þar sem eftir­spurn eykst frá smærri fjár­festum sem kjósa að eiga við­skipti utan hefðbundins vinnutíma.

Að sögn heimilda blaðsins er LSEG að meta tækni­leg og reglu­varðandi at­riði tengd mögu­legri fram­lengingu við­skiptatíma, meðal annars áhrif á fyrir­tæki með tvöfaldar skráningar og hvernig breyttur opnunar­tími gæti haft áhrif á lausa­fjár­stöðu markaðarins.

Í dag standa hefðbundin við­skipti yfir frá kl. 8:00 til 16:30 að breskum tíma.

„Við erum svo sannar­lega að skoða þetta, hvort sem það þýðir sólar­hrings­við­skipti eða aðeins fram­lengdan við­skiptatíma,“ hefur FT eftir heimildar­manni.

Þar segir jafn­framt að verið sé að ræða málið frá við­skipta­legu, reglu­varðandi og stefnu­markandi sjónar­horni.

Áhugi á fram­lengdum við­skiptatímum hefur aukist meðal hluta­bréfa­markaða víða um heim, ekki síst í Bandaríkjunum þar sem New York Stock Exchange, Nas­daq og CBOE hafa sótt um heimildir til að lengja opnunar­tíma sína.

Upp­gangur í raf­mynta­við­skiptum, sem fara fram allan sólar­hringinn, hefur einnig haft áhrif á væntingar fjár­festa.

Þrátt fyrir að hlut­fall tekna LSEG af hluta­bréfa­við­skiptum sé lágt eða aðeins 2,7 pró­sent á fyrsta árs­fjórðungi gegnir hluta­bréfa­markaðurinn í Lundúnum enn mikilvægu hlut­verki við að veita er­lendum fjár­festum að­gang að breskum fyrir­tækjum.

Samtök evrópskra verðbréfa­miðlana (FESE) hafa lýst því yfir að fram­lengdir opnunar­tímar gætu aukið þátt­töku smærri fjár­festa en bæta jafn­framt við að það þurfi að meta hvort slíkt fyrir­komu­lag sé sjálf­bært eða ábata­samt til lengri tíma litið.

LSEG hefur ekki gefið út opin­bera yfir­lýsingu um málið.