Kauphöllin í Lundúnum (LSEG) er að skoða hvort skynsamlegt sé að hefja viðskipti með hlutabréf allan sólarhringinn, að því er fram kemur í frétt Financial Times.
Þetta er hluti af vaxandi þróun á mörkuðum þar sem eftirspurn eykst frá smærri fjárfestum sem kjósa að eiga viðskipti utan hefðbundins vinnutíma.
Að sögn heimilda blaðsins er LSEG að meta tæknileg og regluvarðandi atriði tengd mögulegri framlengingu viðskiptatíma, meðal annars áhrif á fyrirtæki með tvöfaldar skráningar og hvernig breyttur opnunartími gæti haft áhrif á lausafjárstöðu markaðarins.
Í dag standa hefðbundin viðskipti yfir frá kl. 8:00 til 16:30 að breskum tíma.
„Við erum svo sannarlega að skoða þetta, hvort sem það þýðir sólarhringsviðskipti eða aðeins framlengdan viðskiptatíma,“ hefur FT eftir heimildarmanni.
Þar segir jafnframt að verið sé að ræða málið frá viðskiptalegu, regluvarðandi og stefnumarkandi sjónarhorni.
Áhugi á framlengdum viðskiptatímum hefur aukist meðal hlutabréfamarkaða víða um heim, ekki síst í Bandaríkjunum þar sem New York Stock Exchange, Nasdaq og CBOE hafa sótt um heimildir til að lengja opnunartíma sína.
Uppgangur í rafmyntaviðskiptum, sem fara fram allan sólarhringinn, hefur einnig haft áhrif á væntingar fjárfesta.
Þrátt fyrir að hlutfall tekna LSEG af hlutabréfaviðskiptum sé lágt eða aðeins 2,7 prósent á fyrsta ársfjórðungi gegnir hlutabréfamarkaðurinn í Lundúnum enn mikilvægu hlutverki við að veita erlendum fjárfestum aðgang að breskum fyrirtækjum.
Samtök evrópskra verðbréfamiðlana (FESE) hafa lýst því yfir að framlengdir opnunartímar gætu aukið þátttöku smærri fjárfesta en bæta jafnframt við að það þurfi að meta hvort slíkt fyrirkomulag sé sjálfbært eða ábatasamt til lengri tíma litið.
LSEG hefur ekki gefið út opinbera yfirlýsingu um málið.