Sonja Arnórsdóttir hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri tekna- og þjónustusviðs (CCO).
Samkvæmt tilkynningu Kauphallarinnar munu verkefni sem heyrðu undir Sonju færast yfir á skrifstofu forstjóra og heyra þá undir forstjóra fyrirtækisins, Einar Örn Ólafsson.
„Sonja hefur haft yfirumsjón með að leiða inn sölu- og þjónustuferla innan fyrirtækisins. Í dag stöndum við uppi með kröftug sölukerfi sem munu reynast fyrirtækinu vel. Þar að auki hafa verið innleidd öflug þjónustuviðmið sem sést hvað best í þeirri einkunn sem við fáum í þjónustukönnunum. NPS-skorið okkar hefur hækkað hratt undanfarið og stendur nú í 54, sem er eitthvað sem við getum verið virkilega stolt af,” segir Einar Örn Ólafsson.
Að sögn Einars er þörf á að gera ákveðnar skipulagsbreytingar í tengslum við nýja stefnu flugfélagsins en markmiðið er að sameina svið og einfalda reksturinn.
„Ég vil þakka Sonju fyrir hennar góða framlag til fyrirtækisins og óska henni velfarnaðar í komandi verkefnum,” segir Einar Örn Ólafsson.
„Það hefur verið einstök vegferð að taka þátt í PLAY ævintýrinu og þetta er reynsla sem ég mun ávallt búa að. Við höfum náð að skapa mjög góðan sölu- og þjónustugrunn sem mun reynast mikilvægur fyrir PLAY að byggja á til framtíðar. Nú þegar ég hverf á önnur mið vil ég þakka starfsfólki PLAY fyrir frábæran tíma og óska þeim alls hins besta,” segir Sonja.