ATP (Arbejds­markedets Til­læg­spension), stærsti líf­eyris­sjóður Dan­merkur og einn af horn­steinum danska vel­ferðar­kerfisins, skilaði 7,5 milljörðum danskra króna í ávöxtun fyrir skatta á fyrri hluta ársins 2025.

Sam­svarar það um 144 milljörðum ís­lenskra króna á gengi dagsins. Eftir skatta nam hagnaðurinn 6,3 milljörðum danskra króna.

Þetta er veru­legur viðsnúningur frá fyrsta árs­fjórðungi þegar sjóðurinn tapaði 700 milljónum króna en um er að ræða um 157 milljarða ís­lenskra króna viðsnúning á milli fjórðunga.

Allir launþegar í Dan­mörku greiða í sjóðinn sem tryggir þeim viðbótar­líf­eyri frá starfs­lokum og til ævi­loka.

Sjóðurinn er með tæp­lega fimm milljónir félags­manna og eignir upp á tæp­lega 700 milljarða danskra króna og er ATP jafn­framt ein stærsta fjár­mála­stofnun landsins.

Eignir sjóðsins eru um 13.463 milljarðar í ís­lenskum krónum á gengi dagsins.

For­stjórinn Martin Præs­tega­ard segir að jákvætt hálfsárs­upp­gjör sé góð niður­staða sem styrki getu sjóðsins til að skapa verðmæti fyrir félags­menn en hann leggur þó áherslu á að langtíma­sjónar­mið ráði för þar sem mark­mið sjóðsins sé að tryggja félags­mönnum stöðugan og ævi­langan líf­eyri óháð sveiflum á mörkuðum.

Mikilvægur hluti eigna ATP er svo­kallaður bónus­spottur sem fjár­fest er með meiri áhættu en hefðbundin fjár­festing sjóðsins.

Megnið af eignunum, um 540 milljarðar króna, er bundið í öruggum skulda­bréfum til að tryggja líf­eyris­greiðslur en bónus­spotturinn, sem nemur 114,5 milljörðum króna, er nýttur til að fjár­festa í áhættu­samari eignum eins og hluta­bréfum, hlut­deildar­skír­teinum og öðrum verðbréfum.

Mark­miðið er að verja líf­eyrinn gegn verðbólgu og tryggja hærri ávöxtun til langs tíma.

Í sumum til­vikum notar ATP einnig lántökur til að stækka bónus­spottinn, sem skapar mögu­leika á meiri arði en felur einnig í sér hærri fjár­mögnunar­kostnað.

Á fyrri hluta ársins skilaði bónus­spotturinn 6,7 pró­senta ávöxtun fyrir skatta, aðal­lega drifinn áfram af er­lendum hluta­bréfum sem skiluðu 6 milljörðum danskra króna í hagnað.

Nánast allt eigna­safnið var jákvætt fyrir utan skráð dönsk hluta­bréf og kostnaðinn við lántökurnar sem tengjast bónus­spottinum.

Sjóðurinn jók einnig veru­lega við sig í Novo Nor­disk og á nú 4,8 milljónir hluta saman­borið við 2,5 milljónir í árs­lok 2024.

Þrátt fyrir þrýsting á gengi hluta­bréfanna hefur markaðsvirði eignarinnar hækkað um 34,4 pró­sent í 2,1 milljarð króna á fyrri hluta ársins.

Heildar­eignir ATP námu 697,7 milljörðum króna í lok júní, sem er 20 milljörðum minna en við áramót. Sú lækkun skýrist af hækkandi vöxtum en sjóðurinn undir­strikar að þetta hafi engin áhrif á tryggðar líf­eyris­greiðslur.

Með þessu upp­gjöri virðist ATP hafa náð vopnum sínum á ný eftir erfitt ár 2022 með jákvæðri ávöxtun þvert á eigna­flokka og styrkari stöðu í áhættu­samari hluta eigna­safnsins.