ATP (Arbejdsmarkedets Tillægspension), stærsti lífeyrissjóður Danmerkur og einn af hornsteinum danska velferðarkerfisins, skilaði 7,5 milljörðum danskra króna í ávöxtun fyrir skatta á fyrri hluta ársins 2025.
Samsvarar það um 144 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins. Eftir skatta nam hagnaðurinn 6,3 milljörðum danskra króna.
Þetta er verulegur viðsnúningur frá fyrsta ársfjórðungi þegar sjóðurinn tapaði 700 milljónum króna en um er að ræða um 157 milljarða íslenskra króna viðsnúning á milli fjórðunga.
Allir launþegar í Danmörku greiða í sjóðinn sem tryggir þeim viðbótarlífeyri frá starfslokum og til æviloka.
Sjóðurinn er með tæplega fimm milljónir félagsmanna og eignir upp á tæplega 700 milljarða danskra króna og er ATP jafnframt ein stærsta fjármálastofnun landsins.
Eignir sjóðsins eru um 13.463 milljarðar í íslenskum krónum á gengi dagsins.
Forstjórinn Martin Præstegaard segir að jákvætt hálfsársuppgjör sé góð niðurstaða sem styrki getu sjóðsins til að skapa verðmæti fyrir félagsmenn en hann leggur þó áherslu á að langtímasjónarmið ráði för þar sem markmið sjóðsins sé að tryggja félagsmönnum stöðugan og ævilangan lífeyri óháð sveiflum á mörkuðum.
Mikilvægur hluti eigna ATP er svokallaður bónusspottur sem fjárfest er með meiri áhættu en hefðbundin fjárfesting sjóðsins.
Megnið af eignunum, um 540 milljarðar króna, er bundið í öruggum skuldabréfum til að tryggja lífeyrisgreiðslur en bónusspotturinn, sem nemur 114,5 milljörðum króna, er nýttur til að fjárfesta í áhættusamari eignum eins og hlutabréfum, hlutdeildarskírteinum og öðrum verðbréfum.
Markmiðið er að verja lífeyrinn gegn verðbólgu og tryggja hærri ávöxtun til langs tíma.
Í sumum tilvikum notar ATP einnig lántökur til að stækka bónusspottinn, sem skapar möguleika á meiri arði en felur einnig í sér hærri fjármögnunarkostnað.
Á fyrri hluta ársins skilaði bónusspotturinn 6,7 prósenta ávöxtun fyrir skatta, aðallega drifinn áfram af erlendum hlutabréfum sem skiluðu 6 milljörðum danskra króna í hagnað.
Nánast allt eignasafnið var jákvætt fyrir utan skráð dönsk hlutabréf og kostnaðinn við lántökurnar sem tengjast bónusspottinum.
Sjóðurinn jók einnig verulega við sig í Novo Nordisk og á nú 4,8 milljónir hluta samanborið við 2,5 milljónir í árslok 2024.
Þrátt fyrir þrýsting á gengi hlutabréfanna hefur markaðsvirði eignarinnar hækkað um 34,4 prósent í 2,1 milljarð króna á fyrri hluta ársins.
Heildareignir ATP námu 697,7 milljörðum króna í lok júní, sem er 20 milljörðum minna en við áramót. Sú lækkun skýrist af hækkandi vöxtum en sjóðurinn undirstrikar að þetta hafi engin áhrif á tryggðar lífeyrisgreiðslur.
Með þessu uppgjöri virðist ATP hafa náð vopnum sínum á ný eftir erfitt ár 2022 með jákvæðri ávöxtun þvert á eignaflokka og styrkari stöðu í áhættusamari hluta eignasafnsins.