Alls eru níu erlendir sjóðir meðal þeirra tuttugu fjárfesta sem fengu mest úthlutað í hlutafjárútboði Íslandsbanka sem lauk í síðustu viku. Samanlagður hlutur þessara níu erlenda sjóða nemur 8,7% af hlutafé bankans. Að undanskildum ríkissjóði er sjóðurinn Capital World stærsti hluthafi bankans með 3,8%. Þetta kemur fram í tilkynningu Íslandsbanka.

Capital World kom inn ásamt Gildi, Lífeyrissjóði verzlunarmanna og RWC Asset Management LLP sem hornsteinsfjárfestar en þessir fjórir fjárfestar fengu mest úthlutað í útboðinu. Samanlagður hlutur þeirra nemur rúmum tíu prósentum af hlutafé Íslandsbanka.

Viðskiptablaðið birti á mánudaginn lista yfir kaupverð nær allra lífeyrissjóða landsins í útboðinu en samtals keyptu þeir sjóðir sem svöruðu fyrirspurn blaðsins fyrir um 13 milljarða króna. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) gaf ekki upp hvort sjóðurinn hefði tekið þátt í útboðinu en á hluthafalistanum má sjá að hlutur LSR (A- og B deildar) nemur 1,5%. Má því áætla að sjóðurinn hafi keypt fyrir rúma 2,4 milljarða króna.

Viðskipti með hlutabréf Íslandsbanka á aðalmarkaði Nasdaq hófust í gær . Veltan á fyrsta viðskiptadeginum nam 5,4 milljörðum króna og gengi bankans endaði daginn 20% yfir útboðsgenginu.