Það sem átti að vera rausnarleg viðurkenning fyrir vinnuframlag starfsmanna Novo Nordisk hefur fyrir marga orðið að fjárhagslegu höggi.
Stórfellt verðfall í hlutabréfum félagsins ásamt flóknum skattareglum hefur leitt til þess að margir starfsmenn standa nú frammi fyrir tapi – jafnvel eftir að hafa greitt háan skatt þegar bréfin voru afhent.
Árið 2019 tilkynnti Novo Nordisk að allir 42.000 starfsmenn fyrirtækisins myndu fá 75 hlutabréf í félaginu endurgjaldslaust, ef þeir væru enn í starfi í febrúar 2023. Þegar bréfin voru afhent hafði verð þeirra nær þrefaldast frá 2019 og nam um 71.000 dönskum krónum, u.þ.b. 1,4 milljónum íslenskra króna, fyrir hvern starfsmann.
Samkvæmt dönskum skattareglum eru úthlutuð hlutabréf skattlögð sem venjulegar tekjur þegar starfsmenn fá bréfin afhent.
Það þýðir að margir starfsmenn greiddu 40–56% skatt af andvirði hlutanna strax við afhendingu, jafnvel þótt þeir hefðu ekki selt bréfin og fengið neina raunverulega peninga í hendur.
Síðan afhendingin fór fram hefur gengi Novo Nordisk fallið um 22%. Markaðsvirði hlutanna er nú um 54.000 danskar krónur, sem er 17.000 krónum minna en þegar skatturinn var greiddur.
Ef starfsmenn selja bréfin nú fá þeir aðeins frádrátt á móti framtíðartekjum af hlutabréfum, ekki almennum launatekjum.
Frádrátturinn er takmarkaður og tap má ekki jafna á móti öðrum tekjum en arði eða framtíðarhagnaði af hlutabréfum.
„Skattareglurnar eru ekki sérstaklega fjárfestavænar,“ segir Henning Boye Hansen, ráðgjafi hjá BDO við Børsen.
Hann bendir á að margir starfsmenn séu í þeirri stöðu að hafa greitt háan skatt en sitja nú uppi með bréf sem eru minna virði en þegar skatturinn var lagður á.
Engar takmarkanir voru á því hvenær starfsmenn máttu selja bréfin. Þeir hefðu getað selt þau strax í febrúar 2023 og tekið út virði þeirra í reiðufé.
Samt sem áður hafa margir haldið bréfunum – bæði af hollustu við fyrirtækið og þeirri tilfinningu að með eignarhlutnum væru þeir orðnir hluti af félaginu sjálfu.
Christian Velin Hansen, ráðgjafi hjá Formue Danmark, segir að starfsmenn tengist fyrirtækinu sterkar vegna eignarhlutarins og vilji því oft ekki selja, jafnvel þótt það sé fjárhagslega hagstætt.
Novo Nordisk hefur þegar tilkynnt um nýja úthlutun: Allir „hæfir“ starfsmenn sem eru enn í starfi árið 2026 fá úthlutuð hlutabréf.
Fyrirtækið segir markmiðið vera að hvetja starfsmenn til daða og skapa samhljóm milli hagsmuna þeirra og hluthafa.
Hins vegar vara sérfræðingar við því að gera starfsmenn að hluthöfum án þess að þeir fái fullnægjandi leiðbeiningar um skattalegar og fjárhagslegar afleiðingar.
„Fyrirtæki hafa skyldu til að útskýra hvað fylgir því að verða hluthafi,“ segir Hansen. „Annars getur góð hugmynd snúist upp í andhverfu sína.“