Það sem átti að vera rausnar­leg viður­kenning fyrir vinnu­fram­lag starfs­manna Novo Nor­disk hefur fyrir marga orðið að fjár­hags­legu höggi.

Stór­fellt verð­fall í hluta­bréfum félagsins ásamt flóknum skatta­reglum hefur leitt til þess að margir starfs­menn standa nú frammi fyrir tapi – jafn­vel eftir að hafa greitt háan skatt þegar bréfin voru af­hent.

Árið 2019 til­kynnti Novo Nor­disk að allir 42.000 starfs­menn fyrir­tækisins myndu fá 75 hluta­bréf í félaginu endur­gjalds­laust, ef þeir væru enn í starfi í febrúar 2023. Þegar bréfin voru af­hent hafði verð þeirra nær þre­faldast frá 2019 og nam um 71.000 dönskum krónum, u.þ.b. 1,4 milljónum ís­lenskra króna, fyrir hvern starfs­mann.

Sam­kvæmt dönskum skatta­reglum eru út­hlutuð hluta­bréf skatt­lögð sem venju­legar tekjur þegar starfs­menn fá bréfin af­hent.

Það þýðir að margir starfs­menn greiddu 40–56% skatt af and­virði hlutanna strax við af­hendingu, jafn­vel þótt þeir hefðu ekki selt bréfin og fengið neina raun­veru­lega peninga í hendur.

Síðan af­hendingin fór fram hefur gengi Novo Nor­disk fallið um 22%. Markaðsvirði hlutanna er nú um 54.000 danskar krónur, sem er 17.000 krónum minna en þegar skatturinn var greiddur.

Ef starfs­menn selja bréfin nú fá þeir aðeins frádrátt á móti framtíðar­tekjum af hluta­bréfum, ekki al­mennum launa­tekjum.

Frádrátturinn er tak­markaður og tap má ekki jafna á móti öðrum tekjum en arði eða framtíðar­hagnaði af hluta­bréfum.

„Skatta­reglurnar eru ekki sér­stak­lega fjár­festa­vænar,“ segir Henning Boye Han­sen, ráðgjafi hjá BDO við Børsen.

Hann bendir á að margir starfs­menn séu í þeirri stöðu að hafa greitt háan skatt en sitja nú uppi með bréf sem eru minna virði en þegar skatturinn var lagður á.

Engar tak­markanir voru á því hvenær starfs­menn máttu selja bréfin. Þeir hefðu getað selt þau strax í febrúar 2023 og tekið út virði þeirra í reiðufé.

Samt sem áður hafa margir haldið bréfunum – bæði af hollustu við fyrir­tækið og þeirri til­finningu að með eignar­hlutnum væru þeir orðnir hluti af félaginu sjálfu.

Christian Velin Han­sen, ráðgjafi hjá Formu­e Dan­mark, segir að starfs­menn tengist fyrir­tækinu sterkar vegna eignar­hlutarins og vilji því oft ekki selja, jafn­vel þótt það sé fjár­hags­lega hagstætt.

Novo Nor­disk hefur þegar til­kynnt um nýja út­hlutun: Allir „hæfir“ starfs­menn sem eru enn í starfi árið 2026 fá út­hlutuð hluta­bréf.

Fyrir­tækið segir mark­miðið vera að hvetja starfs­menn til daða og skapa sam­hljóm milli hags­muna þeirra og hlut­hafa.

Hins vegar vara sér­fræðingar við því að gera starfs­menn að hlut­höfum án þess að þeir fái fullnægjandi leiðbeiningar um skatta­legar og fjár­hags­legar af­leiðingar.

„Fyrir­tæki hafa skyldu til að út­skýra hvað fylgir því að verða hlut­hafi,“ segir Han­sen. „Annars getur góð hug­mynd snúist upp í and­hverfu sína.“