Jón Óli Ólafsson, eigandi Reiðhjólaverzlunarinnar Berlin, segist hafa séð mikla aukningu í sölu reiðhjóla undanfarin ár. Salan hefur þá verið sérstaklega mikil meðal rafmagnshjóla en þau hjól samsvara nú rúmlega 35% af allri sölu verslunarinnar.

„Það eru fleiri og fleiri sem eru að skoða það að vera með hjól dagsdaglega og hluti af því er umhverfið. Fólk vill kannski vera með einn bíl, frekar en tvo og svo er fólk sem vill líka bara hjóla. Ég hef alveg fundið fyrir mikilli aukningu milli ára.“

Jón Óli segir að á undanförnum árum hafi hann fundið fyrir rúmlega 10-15% söluaukningu milli ára og þegar heimsfaraldur skall á hafi hann nánast selt allan lagerinn. Sjálfur er hann mikill hjólreiðamaður en segir að það séu margar ástæður fyrir því að fólk ákveði að fjárfesta í reiðhjóli.

„Sumir vilja bara hjóla yfir sumartímann frá svona apríl til september. Svo eru pör eða hjón sem vilja fá sér hjólatúr yfir helgarnar og svo eru þeir sem hafa kannski ekki hjólað í 10-15 ár og þá eru auðvitað rafmagnshjólin mjög góður kostur.“

Hann segir íslenskt veðurfar eiga stóran þátt í því að fæla fólk frá hjólreiðum en um leið og fólk er komið með góðan regnfatnað, vettlinga og úlpu þá sé veðrið ekki það sem trufli.

„Stór hluti af þessu er hugarfar. Sjálfur byrjaði ég að hjóla einu sinni til tvisvar í viku í vinnuna og fór svo hægt og rólega að hjóla meira og svo um haustið þá var ég bara hættur að nota bíl. Tæplega tveimur árum seinna seldi ég bílinn og hef ekki notað bíl síðan 2012.“

Jón Óli segist líka sjá miklar breytingar í hugarfari fólks og séu margir til að mynda farnir að sækja börnin sín á hjólum sem eru útbúin barnastólum og telur að það muni aukast til muna í framtíðinni. Sveitarfélög séu einnig duglegri að moka hjólastíga þar sem fólk er líklegra til að stíga upp í bíl ef það er ekki gert.

„Ég veit líka að fyrir suma þá getur þetta bara verið íhugun að hjóla úr vinnunni. Það kemur heim og er búið að gleyma öllu sem gerðist í vinnunni, hvort sem það var jákvætt eða neikvætt. Ef þú hefur innviðina, hvort sem það eru vegir, hjólastígar, gangandi, strætó eða hvað þá mun fólk bara velja það sem hentar,“ segir Jón Óli.