Streymisveitan Twitch, sem er í eigu Amazon, hefur staðfest að fyrirtækið varð fyrir gagnaleka í dag og upplýsingum birt á spjallsíðunni 4chan. Svo virðist sem að frumkóðar og útgreiðslur til notenda hafi verið meðal upplýsinga í lekanum. WSJ greinir frá.
Netverjar hafa búið til lista yfir tekjuhæstu streymisgjafana (e. streamers), en taka skal fram að tekjurnar ná aðeins til áskrifta og auglýsingatekna á streymisveitunni sjálfri en ekki annarra tekjustoða líkt og vörusölu eða fjárframlögum frá áhorfendum á öðrum vettvöngum.
Alls er 81 streymisgjafi (e. streamer) sem fékk greitt meira en eina milljón dala, eða yfir 128 milljóna króna markið, frá Twitch frá ágúst 2019.
Efstur á listanum er Critical Role, hópur raddleikara sem streyma lotum af hlutverkaleiknum Dýflissur og drekar (e. Dungeons & Dragons). Hópurinn hefur fengið 9,6 milljónir dala, eða sem nemur 1,2 milljörðum króna, á síðustu tveimur árum.
Hinir fjórir streymisgjafarnir sem eru með yfir 5 milljónir dala í tekjur frá Twitch á þessu tímabili sérhæfa sig í að spila tölvuleikina Overwatch, Counter-Strike og Fortnite.
Amazon keypti Twitch, sem hét upphaflega Justin.tv, árið 2014 fyrir 970 milljónir dala. Streymisveitan státar sig af því að á meðaltali fylgjast 2,5 milljónir áhorfenda með streymum á síðunni á hverjum tíma.
Tíu tekjuhæstu Twitch streymisgjafarnir frá ágúst 2019:
1. 9.6 milljónir dala - CriticalRole
2. 8.4 milljónir dala – xQcOW
3. 5.8 milljónir dala - summit1g
4. 5.2 milljónir dala – Tfue
5. 5 milljónir dala – NICKMERCS
6. 3.2 milljónir dala – ludwig
7. 3.2 milljónir dala - TimTheTatman
8. 3 milljónir dala - Altoar
9. 3 milljónir dala - auronplay
10. 2.9 milljónir dala - LIRIK