Þegar Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti um tollaáform Bandaríkjastjórnar þann 2. apríl í vor féllu hlutabréfavísitölur um allan heim. Síðustu mánuði hafa hlutabréfamarkaðir tekið vel við sér og vísitölur hækkað mikið.
Spurður hvort hann kunni skýringu á þessu svarar Hafsteinn Hauksson, aðalhagfræðingur Kviku banka: „Ég held að í Bandaríkjunum komi þrennt til. Í fyrsta lagi TACO-kenningin svonefnda - „Trump Always Chickens Out“. Með öðrum orðum treysta fjárfestar því að bandarísk stjórnvöld falli frá verstu tollaáformunum þegar á hólminn er komið og því verði tollastríðið aldrei jafnslæmt og stefndi í fyrr á árinu. Hér skiptir miklu máli að Bandaríkin hafa dregið úr stigmögnun gagnvart Kína."
„Í öðru lagi að hagvísar í Bandaríkjunum hafa almennt ekki sýnt nein veruleg sársaukamerki. Verðbólga hefur verið til friðs, umsvif gáfu ekki verulega eftir framan af og uppgjör stóru tæknirisanna hafa áfram verið sterk.
Í þriðja lagi vaxandi meðgjöf í ríkisfjármálum Bandaríkjanna eftir samþykkt nýs fjárlagafrumvarps.“
Hafsteinn segir að þetta hafi leitt til innflæðis inn á bandarískan hlutabréfamarkað, sérstaklega frá almennum fjárfestum sem hafa verið að elta þessar miklu hækkanir, oft með gíruðum stöðutökum eða valréttum – en stofnanafjárfestar hafi verið varfærnari.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.