Sveinbjörn Ingi Grímsson hefur gengið til liðs við nýsköpunar- og viðskiptaþróunarsvið Ríkiskaupa. Þetta kemur fram í tilkynningu. Hjá Ríkiskaupum mun Sveinbjörn aðstoða opinbera aðila og birgja við að ná fram aukinni skilvirkni og skapa nýtt virði í innkaupum með því að koma hugmyndum að nýsköpun og umbótum í framkvæmd.

Á undanförnum árum hefur Sveinbjörn sinnt ráðgjöf og þjónustu við stofnanir, sveitarfélög, ráðuneyti og fyrirtæki á sviði framtíðarfræða og breytingastjórnunar. Þá hefur hann einnig reynslu af innleiðingarvinnu á tækninýjungum og margvíslegu markaðsstarfi og verkefnastjórnun.

Sveinbjörn hefur starfað sem ráðgjafi hjá KPMG um árabil og unnið þar með stórum og smáum sveitarfélögum við sviðsmyndagreiningar og sameiningaviðræður. Hann hefur stýrt heildrænni stefnumótun ríkisstofnana og er kunnugur staðháttum á opinberum vettvangi.

Þar áður nam Sveinbjörn viðskiptafræði í Bandaríkjunum við Birmingham Southern College og síðar við Háskólann í Reykjavík. Lokaverkefni hans í HR fjallaði um víddir endurgjafarmenningar og hvað þyrfti til að rækta og viðhalda uppbyggilegri og einlægri endurgjafarmenningu á vinnustaðnum.

„Það eru einstaklega spennandi tímar fram undan innan veggja Ríkiskaupa. Það heyrist langar leiðir að þar sé verið að undirbúa miklar umbætur og það er ein stærsta ástæðan fyrir því að ég sótti um - ég vil vera með þeim í liði og taka þátt í þessari vegferð."