Líkt og Við­skipta­blaðið greindi frá í dag mun Síminn bjóða áskrif­endum sínum upp á Enska boltann í haust, eftir að Fjar­skipta­stofa úr­skurðaði að Sýn yrði að veita að­gang að rásunum SÝN og SÝN Sport.

Í frétta­til­kynningu sem Sýn sendi frá sér síð­degis kemur fram að félagið hafi kært bráða­birgðaákvörðun Fjar­skipta­stofu til úr­skurðar­nefndar fjar­skipta- og póst­mála, auk þess sem beðið hefur verið um frestun réttaráhrifa á meðan málið er til með­ferðar.

Félagið segir að ákvörðunin feli í sér „veru­lega og óaftur­kræfa íhlutun“ í starf­semi þess og brjóti gegn grund­vallar­reglum stjórnsýsluréttar.

„Við hjá Sýn teljum þessa niður­stöðu vera veru­lega óvænta, sér­stak­lega þar sem hún gengur gegn því sem við teljum eðli­legar leik­reglur á markaði. Með þessu er Fjar­skipta­stofa að styrkja markaðs­ráðandi stöðu eins fyrir­tækis um­fram önnur, sem er ekki til hags­bóta fyrir neyt­endur,“ segir Her­dís Dröfn Fjeld­sted for­stjóri Sýnar.

Síminn mun selja Sýn+ Sport Ísland og Sýn+ Allt Sport ásamt því að dreifa sjónvarpsstöðinni Sýn í gegnum myndlykla og sjónvarpsöpp Símans.

Sýn+ Allt Sport kostar 8.990 krónur á mánuði og Sýn+ Sport Ísland 5.990 krónur á mánuði. Til samanburðar kostar ódýrasta áskriftarleið sem stendur til boða hjá Sýn 11.990 krónur á mánuði.

Sýn hefur fallist á að línu­legu sjón­varps­rásirnar SÝN og SÝN Sport verði áfram að­gengi­legar á kerfum Símans tíma­bundið, á meðan kæran er í ferli. Hins vegar verður streymis­veitan SÝN+ og allt ólínu­legt efni tekið út 1. septem­ber næst­komandi.

Sýn leggur áherslu á að það sem Síminn bjóði upp á sé ekki sam­bæri­legt við það sem fylgir með áskriftum beint hjá Sýn.

Þar á meðal séu auka­rásir, dýpri um­fjöllun og að­gangur að streymi í gegnum SÝN+, sem Síminn hafi ekki að­gang að.

Sýn lýsir því yfir að ákvörðunin feli í sér þá skyldu að af­henda sam­keppnisaðila efni sitt inn á lokað kerfi, og jafn­framt að standa sjálft straum af þeim kostnaði.

Her­dís Dröfn Fjeld­sted, for­stjóri Sýnar, segir ákvörðunina óvænta og and­stæða eðli­legum leik­reglum í sam­keppni.

„Við hvetjum því alla áskrif­endur að kynna sér þær leiðir sem Sýn býður upp á til að neyta sjón­varps­efnis og fjar­skipta frá Sýn. Með því að nýta þessar leiðir eruð þið að styðja við heil­brigða sam­keppni, fjöl­breyttara efnis­fram­boð og nýsköpun á ís­lenskum markaði,“ segir hún í yfir­lýsingu.