Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í dag mun Síminn bjóða áskrifendum sínum upp á Enska boltann í haust, eftir að Fjarskiptastofa úrskurðaði að Sýn yrði að veita aðgang að rásunum SÝN og SÝN Sport.
Í fréttatilkynningu sem Sýn sendi frá sér síðdegis kemur fram að félagið hafi kært bráðabirgðaákvörðun Fjarskiptastofu til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála, auk þess sem beðið hefur verið um frestun réttaráhrifa á meðan málið er til meðferðar.
Félagið segir að ákvörðunin feli í sér „verulega og óafturkræfa íhlutun“ í starfsemi þess og brjóti gegn grundvallarreglum stjórnsýsluréttar.
„Við hjá Sýn teljum þessa niðurstöðu vera verulega óvænta, sérstaklega þar sem hún gengur gegn því sem við teljum eðlilegar leikreglur á markaði. Með þessu er Fjarskiptastofa að styrkja markaðsráðandi stöðu eins fyrirtækis umfram önnur, sem er ekki til hagsbóta fyrir neytendur,“ segir Herdís Dröfn Fjeldsted forstjóri Sýnar.
Síminn mun selja Sýn+ Sport Ísland og Sýn+ Allt Sport ásamt því að dreifa sjónvarpsstöðinni Sýn í gegnum myndlykla og sjónvarpsöpp Símans.
Sýn+ Allt Sport kostar 8.990 krónur á mánuði og Sýn+ Sport Ísland 5.990 krónur á mánuði. Til samanburðar kostar ódýrasta áskriftarleið sem stendur til boða hjá Sýn 11.990 krónur á mánuði.
Sýn hefur fallist á að línulegu sjónvarpsrásirnar SÝN og SÝN Sport verði áfram aðgengilegar á kerfum Símans tímabundið, á meðan kæran er í ferli. Hins vegar verður streymisveitan SÝN+ og allt ólínulegt efni tekið út 1. september næstkomandi.
Sýn leggur áherslu á að það sem Síminn bjóði upp á sé ekki sambærilegt við það sem fylgir með áskriftum beint hjá Sýn.
Þar á meðal séu aukarásir, dýpri umfjöllun og aðgangur að streymi í gegnum SÝN+, sem Síminn hafi ekki aðgang að.
Sýn lýsir því yfir að ákvörðunin feli í sér þá skyldu að afhenda samkeppnisaðila efni sitt inn á lokað kerfi, og jafnframt að standa sjálft straum af þeim kostnaði.
Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Sýnar, segir ákvörðunina óvænta og andstæða eðlilegum leikreglum í samkeppni.
„Við hvetjum því alla áskrifendur að kynna sér þær leiðir sem Sýn býður upp á til að neyta sjónvarpsefnis og fjarskipta frá Sýn. Með því að nýta þessar leiðir eruð þið að styðja við heilbrigða samkeppni, fjölbreyttara efnisframboð og nýsköpun á íslenskum markaði,“ segir hún í yfirlýsingu.