Námufélagið Baridi í Tansaníu, sem er nær alfarið í eigu Íslendinga, fékk á dögunum afhent auðlindamat frá jarðfræðirannsóknafyrirtækinu SRK Exploration Services, óháðum alþjóðlegum aðila sem hefur til að mynda unnið sambærileg möt um Amaroq.

Kristinn Már Gunnarsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Baridi, lýsir skýrslu SRK sem stóru skrefi fyrir félagið.

„Með nýjustu skýrslu frá SRK fáum við ekki aðeins staðfest að Baridi Group sé með rannsóknar- og námuleyfi á réttum stöðum, heldur að þessi leyfi innihaldi málma í einstaklega háum gæðum,“ segir Kristinn í viðtali í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun.

„Yfirborðsprufur hafa sýnt koparinnihald upp í 40% og grafít allt að 17%. Þetta undirstrikar að við erum ekki bara með sterka sögu um uppbyggingu í Tansaníu – heldur höfum við í höndunum einstaka efnahagslega möguleika sem geta breytt leiknum í námuvinnslu í Austur-Afríku.“

Í viðtalinu ræðir Kristinn nánar um kopar- og grafítleyfi félagsins. Hann segir Baridi auk þess hafa fengið staðfestingu í skýrslu SRK um að félagið sé búið að tryggja sér öll tilskilin útflutningsleyfi og sé með öflugt teymi jarðfræðinga.

„Við erum bara eitt af mjög fáum evrópskum námufyrirtækjum í Austur-Afríku með góða rekstrarsögu.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast greinina í heild sinni hér og annað efni úr blaðinu hér.