Ferða­skrif­stofan Aventura, sem rekur starf­semi á Ís­landi og Norður­löndum, skilaði 29% tekju­aukningu árið 2024 og námu heildar­tekjur 2,75 milljörðum króna.

Þetta er annað árið í röð sem félagið sýnir mikinn vöxt, en árið ein­kenndi áfram­haldandi fjár­festing í nýjum áfangastöðum, bókunar­kerfum og tækni­lausnum til að styðja við framtíðar­vöxt.

Hagnaður ársins nam 22 milljónum króna, sem er lækkun frá 55 milljónum árið áður.

Sam­kvæmt skýrslu stjórnar má rekja það að hluta til mikilla fjár­festinga í inn­viðum, sér í lagi hug­búnaðarþróun og kaupum á nýjum vöru­merkjum á er­lendum mörkuðum.

Engar vaxta­berandi skuldir

Aventura heldur áfram að byggja upp reksturinn á traustum fjár­hags­grunni. Eigið fé í árs­lok nam 76,7 milljónum króna, auk 57 milljóna í víkjandi láni frá eig­anda, sem gefur 41,7% eigin­fjár­hlut­fall.

Veltu­fjár­hlut­fallið mælist 1,54 og félagið er al­farið skulda­laust að því er varðar vaxta­berandi skuldir. Heildar­eignir námu 320 milljónum króna í lok árs.

Á árinu var greiddur 20 milljóna króna arður til hlut­hafa vegna rekstrarársins 2023 en stjórn leggur til að ekki verði greiddur arður vegna 2024.

Félagið fjár­festi á árinu í sjö nýjum vöru­merkjum í Skandinavíu. Þau verða kynnt á næstunni og inn­leidd inn í núverandi tækni­grunn félagsins.

Stjórnin telur að þessi viðbót geti aukið tekjur veru­lega, þar sem nú þegar sé til staðar öflugur tækni­legur inn­viður sem nýju vöru­merkin geta nýtt sér strax.

Aventura gerir ráð fyrir áfram­haldandi tekju­vexti á yfir­standandi ári, en sér­stak­lega miklum vaxtar­mögu­leikum árið 2026, þegar þessi nýju vöru­merki koma að fullu inn í tekju­bók­haldið.