Ferðaskrifstofan Aventura, sem rekur starfsemi á Íslandi og Norðurlöndum, skilaði 29% tekjuaukningu árið 2024 og námu heildartekjur 2,75 milljörðum króna.
Þetta er annað árið í röð sem félagið sýnir mikinn vöxt, en árið einkenndi áframhaldandi fjárfesting í nýjum áfangastöðum, bókunarkerfum og tæknilausnum til að styðja við framtíðarvöxt.
Hagnaður ársins nam 22 milljónum króna, sem er lækkun frá 55 milljónum árið áður.
Samkvæmt skýrslu stjórnar má rekja það að hluta til mikilla fjárfestinga í innviðum, sér í lagi hugbúnaðarþróun og kaupum á nýjum vörumerkjum á erlendum mörkuðum.
Engar vaxtaberandi skuldir
Aventura heldur áfram að byggja upp reksturinn á traustum fjárhagsgrunni. Eigið fé í árslok nam 76,7 milljónum króna, auk 57 milljóna í víkjandi láni frá eiganda, sem gefur 41,7% eiginfjárhlutfall.
Veltufjárhlutfallið mælist 1,54 og félagið er alfarið skuldalaust að því er varðar vaxtaberandi skuldir. Heildareignir námu 320 milljónum króna í lok árs.
Á árinu var greiddur 20 milljóna króna arður til hluthafa vegna rekstrarársins 2023 en stjórn leggur til að ekki verði greiddur arður vegna 2024.
Félagið fjárfesti á árinu í sjö nýjum vörumerkjum í Skandinavíu. Þau verða kynnt á næstunni og innleidd inn í núverandi tæknigrunn félagsins.
Stjórnin telur að þessi viðbót geti aukið tekjur verulega, þar sem nú þegar sé til staðar öflugur tæknilegur innviður sem nýju vörumerkin geta nýtt sér strax.
Aventura gerir ráð fyrir áframhaldandi tekjuvexti á yfirstandandi ári, en sérstaklega miklum vaxtarmöguleikum árið 2026, þegar þessi nýju vörumerki koma að fullu inn í tekjubókhaldið.