Deutsche Bank hefur fært upp virðismat sitt á enska knattspyrnuliðinu Manchester United en Bloomberg greinir frá þessu. Greiningaraðili hjá þýska bankanum metur gengi fótboltafélagsins á 18 dali á hlut, sem er um 30% yfir núverandi gengi Manchester United. Hlutabréfin hafa hækkað um 5% frá opnun markaða í morgun og standa nú í 13,8 dölum.

Uppfærða verðmat Deutsche Bank kemur í kjölfar yfirtökutilboða í Chelsea eftir að rússneski auðkýfingurinn Roman Abramovich setti knattspyrnufélagið í söluferli fyrr í mánuðinum. Centricus Asset Management lagði inn tilboð sem metur virði Chelsea á meira en 3 milljarða punda og felur í sér skuldbindingar um frekari fjárfestingu.

Hlutabréf Manchester United, sem eru skráð í New York kauphöll Nasdaq undir auðkenninu MANU, hækkuðu nokkuð í lok sumars og fóru upp í 20,5 dali í september en hafa síðan þá legið niður á við og fóru lægst í 12,2 dali í byrjun mars.

Meðal skýringa á lækkun bréfanna er sala Glazer fjölskyldunnar, meirihlutaeiganda félagsins, á 8% af eignarhlut sínum í haust. Fjölskyldan fer þó enn þá með 69% hlut í United. Einnig hefur frammistaða Manchester United verið undir væntingum í vetur en ólíklegt þykir að félagið endi í einum a fjórum efstu sætum ensku úrvalsdeildarinnar sem tryggir meistaradeildarsæti fyrir næstu leiktíð.

Vörumerki knattspyrnufélagsins er þó enn þá sterkt að mati greinanda Deutsche Bank. „Man U er eitt af þekktustu og verðmætustu íþróttafélögum í heimi með yfir 200 milljónir fylgjendur á samfélagsmiðlum,“ skrifar hann.