Hag­kerfi Ís­lands sýnir meiri styrk en ný­legar tölur Hag­stofunnar um hag­vöxt gefa til kynna, að mati Jóns Bjarka Bents­sonar, aðal­hag­fræðings Ís­lands­banka.

Í ítar­legri greiningu hans kemur fram að tíma­bundnir þættir og tak­markanir í gögnum skekki myndina af raun­veru­legri hagþróun og að út­lit sé fyrir betri vaxtar­horfur á seinni hluta ársins.

Sam­kvæmt bráða­birgðatölum Hag­stofunnar minnkaði verg lands­fram­leiðsla (VLF) um 1,9% á öðrum árs­fjórðungi miðað við sama tíma­bil í fyrra.

Þetta kemur á óvart þar sem Seðla­bankinn spáði ný­lega 3% hag­vexti á fjórðungnum.

Jón Bjarki bendir á að fyrstu tölur Hag­stofunnar séu oft endur­skoðaðar veru­lega síðar og að raun­tölur gætu endur­speglað sterkari eftir­spurn og vöxt en nú virðist.

Hann nefnir að inn­flutningur fjár­festingar­vara hafi aukist gríðar­lega, ekki síst vegna gagna­vera­bygginga, en hluti þessarar aukningar hafi enn ekki komið fram sem fjár­muna­myndun eða neysla í þjóðhags­reikningum.

Þessi tíma­bundna skekkja gæti því gefið ranga mynd af efna­hags­um­svifum á fjórðungnum.

Þrátt fyrir sam­drátt í VLF jókst inn­lend eftir­spurn um 3,9%, knúin áfram af bæði neyslu og fjár­festingu. Sér­stak­lega stendur at­vinnu­vega­fjár­festing sterk, með tæp­lega 14% raun­vexti á fjórðungnum.

Einka­neysla heldur áfram að vaxa í takt við kaup­mátt og fólks­fjölgun. Skuldir heimilanna eru hóf­legar og sparnaður þeirra tals­verður, sem dregur úr hættu á skuld­settri neyslu­aukningu. Sam­neysla jókst hins vegar einungis um 0,3%, hægasti vöxtur í níu ár.

Út­flutningur vöru dróst saman um 4,5%, mögu­lega vegna tíma­bundinna áhrifa eins og tolla­deilu Bandaríkjanna og annarra þjóða.

Þjónustuút­flutningur bætti það að hluta upp með 4,2% aukningu, drifinn áfram af ferðaþjónustu sem hefur reynst ein helsta stoð efna­hags­lífsins á þessu ári.

Á sama tíma jókst inn­flutningur alls um 13,4%, að miklu leyti vegna stórrar fjár­festingar í gagna­verum.

Þegar þessi tíma­bundni þáttur er undan­skilinn er vöxtur hins vegar mun hóf­legri, sem bendir til að undir­liggjandi jafn­vægi gæti verið betra en bráða­birgðatölur gefa til kynna.

Jón Bjarki bendir á að ef þessi ­vanda­mál leiðréttast á næstu fjórðungum, auk þess sem ferðaþjónustan stendur sterk, gæti hag­vöxtur á seinni hluta ársins orðið um­tals­vert meiri en tölur annars fjórðungs gefa til kynna.

Ís­lands­banki spáir nú tæp­lega 2% hag­vexti fyrir árið í heild, sem er í takt við 2,3% spá Seðla­bankans frá ágúst.

Vaxta­að­gerðir Seðla­bankans hafa dregið úr eftir­spurnarþrýstingi en áfram­haldandi verðbólgulækkun gæti skapað svigrúm til vaxtalækkana á næsta ári.

Greining Jóns Bjarka dregur þá ályktun að ís­lenskt hag­kerfi sé enn tölu­vert seigt og fjarri því að stefna í efna­hags­kreppu. At­vinnu­leysi er lágt og fjár­hags­staða heimila og fyrir­tækja er sterk.