Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða hf., segir í nýju hluthafabréfi að þrálát verðbólga og dvínandi væntingar um vaxtalækkanir hafi sett mark sitt á innlenda fjármálamarkaði á fyrri hluta ársins.
Hann telur líklegt að stýrivextir haldist háir lengur en áður var gert ráð fyrir, bæði hér á landi og erlendis, þar sem seðlabankar séu varfærnir í að snúa við peningastefnu sinni.
Jón bendir á að háir vextir hafi mismunandi áhrif á þjóðfélagshópa, yngri kynslóðir beri þyngri byrðar vegna hærri vaxtagreiðslna af húsnæðislánum, á meðan eldri kynslóðir njóti ávinnings af hærri innlánsvöxtum.
„Þetta háa vaxtastig bitnar hvað mest á yngri kynslóðum í formi hárra vaxtagjalda af húsnæðislánum á meðan eldri kynslóðir, sem skulda almennt minna og eiga meirihluta innlána, njóta ávinnings í formi hærri vaxtatekna. Birtist það hvað best í þeirri staðreynd að síðan 2021 hafa vaxtatekjur heimilanna meira en tvöfaldast. Þannig hefur neyslugeta hjá stórum hluta fólks aukist eftir því sem vextir hafa hækkað, þvert á markmið Seðlabankans um að slá á neyslu með sínum aðgerðum,” skrifar Jón Sigurðsson.
Vill meiri framsýni hjá Seðlabankanum
Vaxtastefnan hafi jafnframt leitt til styrkingar krónunnar, sem Seðlabankinn hafi reynt að vega upp með reglulegum gjaldeyriskaupum.
Jón segir að aðlögun krónunnar sé óumflýjanleg og hvetur lífeyrissjóði til að nýta sterkt gengi til erlendra fjárfestinga.
Forstjórinn gagnrýnir að peningastefnan sé „komin í ógöngur“ og beri keim af nálgun sem var við lýði fyrir um 20 árum, þrátt fyrir breytt efnahagsumhverfi. Hann segir það ekki ósigur að breyta um stefnu þegar aðstæður kalli á það.
„Það væri óskandi að Seðlabankinn myndi sýna meiri framsýni, eins og ég hef margoft kallað eftir, og horfast í augu við að þessi nálgun á viðfangsefnið er komin í ógöngur. Stefnan í dag minnir um margt á þá stefnu sem framfylgt var fyrir um 20 árum síðan þrátt fyrir að efnahagsumhverfið hafi tekið miklum breytingum,” skrifar Jón.
Jón lýsir einnig áhyggjum af mikilli hækkun veiðigjalda sem samþykkt var fyrir sumar.
Hann segir að slík skattahækkun á skömmum tíma geti haft sambærileg neikvæð áhrif og tvöföldun innviðagjalds á farþega skemmtiferðaskipa á síðasta kjörtímabili, sem hafi leitt til afbókana og samdráttar í komu skipa.
Í lok bréfsins hvetur Jón stjórnvöld til að tryggja atvinnulífinu skýra langtímasýn um regluverk, skattlagningu og innviðafjárfestingu.
Hann varar við að miklar breytingar á skattaumhverfi og auðlindagjöldum skapi óvissu sem dragi úr fjárfestingu og verðmætasköpun til lengri tíma.