Markaðsstofan Digido sem fagnaði þriggja ára afmæli fyrr á árinu hefur ráðið þrjá nýja starfsmenn en það eru Páll Guðbrandsson, Tara Líf Tómasdóttir og Birkir Árnason. Mikil fjölgun verkefna og stóraukið þjónustuframboð liggur að baki ráðningunum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Digido.
Páll Guðbrandsson hefur 15 ára reynslu í auglýsinga- og markaðsmálum. Hann var viðskiptatengill hjá H:N Markaðssamskiptum í 6 ár ásamt því að stýra birtingadeild stofunnar. Páll starfaði einnig sem framkvæmdastjóri Aldeilis auglýsingastofu í 3 ár. Hann mun koma til með að sinna ýmsum verkefnum fyrir Digido í ráðgjöf og greiningu auk þess að byggja upp og stýra nýrri deild hjá fyrirtækinu sem sinnir birtingum á íslenskum miðlum.
Tara Líf Tómasdóttir er sérfræðingur í vef- og leitarvélabestun og kemur til Digido frá Better Collective í Danmörku sem er leiðandi aðili á heimsvísu í iGaming. Tara er með B.A. gráðu í alþjóðaviðskiptum og markaðsmálum frá Cphbusiness. Sérþekking hennar á leitarvélabestun og reynsla af erlendum vettvangi mun reynast viðskiptavinum Digido gríðarvel í framtíðinni.
Birkir Árnason mun sinna fjölbreyttum verkefnum fyrir viðskiptavini Digido. Meðal þeirra eru markaðssetning á stafrænum miðlum, greiningar og birtingastjórnun ásamt almennri markaðsráðgjöf. Hann starfaði áður í markaðsmálum fyrir Fætur toga og er með B.S. gráðu í Ferðamálafræði og er að ljúka M.Sc. gráðu í Markaðs- og alþjóðaviðskiptum við Háskóla Íslands.
Spennandi tímar framundan
„Við höfum verið í stöðugum vexti frá stofnun Digido fyrir þremur árum." segir Andri Már Kristinsson, annar stofnenda Digido. „Frá upphafi höfum við stefnt á að vera leiðandi aðili á sviði gagnadrifinnar markaðssetningar með áherslu á stafrænt markaðsstarf. Við höfum til að mynda haldið námskeið sjálf og í samstarfi við Akademias með það að markmiði að efla þekkingu á þessu sviði hjá íslenskum fyrirtækjum og hafa meira en 200 manns setið þessi námskeið nú þegar. Því meiri þekking sem er á þessum málum hjá okkar samstarfsaðilum, því betra og árangursríkara verður samstarfið." segir Andri. „Þau Páll, Tara og Birkir koma inn með gríðarlega verðmæta þekkingu sem gerir okkur kleift að vinna enn betur fyrir okkar samstarfsaðila jafnt á innlendum sem erlendum markaði." bætir Andri við.
Digido er markaðsstofa sem hefur unnið fyrir mörg af stærstu fyrirtækjum landsins við ráðgjöf og umsjón í kringum markaðs- og birtingamál. Meðal viðskiptavina eru Icelandair, Arion banki, Síminn, Domino's og Origo auk fjölda annarra. Hjá Digido starfa sjö sérfræðingar í markaðs- og auglýsingaráðgjöf með áherslu á gagnadrifna markaðssetningu.