Fjöldi stjórn­enda fyrir­tækja hefur flutt lög­heimili sitt frá Bret­landi síðustu mánuði, í kjölfar af­náms sér­stakrar skatta­með­ferðar svo­nefndra „non-doms“ og annarra breytinga á skatt­lagningu auðugs fólks.

Sam­kvæmt nýrri greiningu Financial Times á gögnum frá Companies Hou­se hefur fjöldi stjórn­enda sem skráð hafa flutning sinn úr Bret­landi farið úr 2.712 ein­stak­lingum (október–júní) árið 2023–2024 í 3.790 á sama tíma­bili 2024–2025 – sem sam­svarar 40% aukningu.

Lang­flestir fluttust til Sam­einuðu arabísku fursta­dæmanna, sér­stak­lega til Dúbaí, þar sem enginn tekju- eða fjár­magns­tekju­skattur er lagður á ein­stak­linga.

Spánn og Bandaríkin voru einnig al­gengir áfangastaðir en Ítalía hefur laðað að sér milljarðamæringa með föstum 200.000 evra skatti á er­lendar tekjur og skatta­afslætti á erfðafé er­lendis frá.

Brott­fluttir stjórn­endur eru bæði frá stórum og litlum fyrir­tækjum. Þeirra á meðal eru Mark Makepeace, stofnandi FTSE Rus­sell, Bart Becht, fyrr­verandi for­stjóri Reckitt Benckiser, og Ric­car­do Silva, fjár­festir í AC Milan og eig­andi Miami FC og John Reece, fjár­mála­stjóri efna­iðnaðar­risans Ineos, flutt lög­heimili sitt til út­landa.

Í fjár­lögum haustsins 2024 stað­festi ríkis­stjórn Keirs Star­mer af­nám „non-dom“-kerfisins. Það hafði leyft er­lendum íbúum að greiða ekki skatt af er­lendum eignum og tekjum. Sam­hliða því var skatt­lagning á erfðafé í fyrir­tækjum hert, sölu­hagnaður skatt­lagður hærra og aukin gjöld lögð á fjár­magns­tekjur í einka­fjár­festingum.

Upp­sveifla brott­flutninga náði há­marki í apríl 2025, þegar breytingarnar tóku form­lega gildi. Þá til­kynntu 691 stjórnandi flutning – 79% fleiri en í apríl 2024 og 104% fleiri en árið 2023

„Fólk elskar Bret­land, menninguna, skólana en skatta­um­hverfið er orðið svo ótryggt að það dregur úr trúverðug­leika landsins sem fjár­festingar­markaðar,“ sagði einn stjórnandi fjár­festingafélags sem ný­lega flutti til Mílanó.

Sam­kvæmt FT felur greiningin í sér aðeins þá stjórn­endur sem halda að minnsta kosti einu stjórnarsæti í Bret­landi eftir flutning. Ekki liggja fyrir opin­berar tölur um raun­veru­legan fjölda auðugra ein­stak­linga sem hafa flutt sig um set. Hins vegar telja sumir sér­fræðingar lík­legt að áhrifin verði tals­verð – sér­stak­lega ef fleiri lönd bjóða skattafslætti eða öflugri fyrir­sjáan­leika.

Arun Advani, sér­fræðingur í skatta­um­hverfi, segir þróunina vera í samræmi við væntingar. Hann bendir jafn­framt á að Bret­land gæti lært af löndum eins og Kanada og Bandaríkjunum, sem beita svo­nefndum „exit tax“ – skatt­lagningu á sölu­hagnað við brott­flutning.

Fjár­málaráðu­neytið ítrekar þó að Bret­land sé áfram sam­keppnis­hæft. Þeir benda á að megin­hlut­fall sölu­hagnaðar­skatts sé lægra en í nokkru öðru Evrópuríki innan G7. Jafn­framt sé nýja kerfið ein­faldara og sann­gjarnara: „Langtíma­búar eiga að greiða sína skatta í Bret­landi.“

Við­skiptaráðherrann Jon­a­t­han Reynolds bætir við að nýja kerfið sé sam­bæri­legt við það sem tíðkast í öðrum þróuðum ríkjum og að af­nám „non-dom“ kerfisins sé nauð­syn­leg upp­færsla á skatt­kerfi frá ný­lendutíma.