Fjöldi stjórnenda fyrirtækja hefur flutt lögheimili sitt frá Bretlandi síðustu mánuði, í kjölfar afnáms sérstakrar skattameðferðar svonefndra „non-doms“ og annarra breytinga á skattlagningu auðugs fólks.
Samkvæmt nýrri greiningu Financial Times á gögnum frá Companies House hefur fjöldi stjórnenda sem skráð hafa flutning sinn úr Bretlandi farið úr 2.712 einstaklingum (október–júní) árið 2023–2024 í 3.790 á sama tímabili 2024–2025 – sem samsvarar 40% aukningu.
Langflestir fluttust til Sameinuðu arabísku furstadæmanna, sérstaklega til Dúbaí, þar sem enginn tekju- eða fjármagnstekjuskattur er lagður á einstaklinga.
Spánn og Bandaríkin voru einnig algengir áfangastaðir en Ítalía hefur laðað að sér milljarðamæringa með föstum 200.000 evra skatti á erlendar tekjur og skattaafslætti á erfðafé erlendis frá.
Brottfluttir stjórnendur eru bæði frá stórum og litlum fyrirtækjum. Þeirra á meðal eru Mark Makepeace, stofnandi FTSE Russell, Bart Becht, fyrrverandi forstjóri Reckitt Benckiser, og Riccardo Silva, fjárfestir í AC Milan og eigandi Miami FC og John Reece, fjármálastjóri efnaiðnaðarrisans Ineos, flutt lögheimili sitt til útlanda.
Í fjárlögum haustsins 2024 staðfesti ríkisstjórn Keirs Starmer afnám „non-dom“-kerfisins. Það hafði leyft erlendum íbúum að greiða ekki skatt af erlendum eignum og tekjum. Samhliða því var skattlagning á erfðafé í fyrirtækjum hert, söluhagnaður skattlagður hærra og aukin gjöld lögð á fjármagnstekjur í einkafjárfestingum.
Uppsveifla brottflutninga náði hámarki í apríl 2025, þegar breytingarnar tóku formlega gildi. Þá tilkynntu 691 stjórnandi flutning – 79% fleiri en í apríl 2024 og 104% fleiri en árið 2023
„Fólk elskar Bretland, menninguna, skólana en skattaumhverfið er orðið svo ótryggt að það dregur úr trúverðugleika landsins sem fjárfestingarmarkaðar,“ sagði einn stjórnandi fjárfestingafélags sem nýlega flutti til Mílanó.
Samkvæmt FT felur greiningin í sér aðeins þá stjórnendur sem halda að minnsta kosti einu stjórnarsæti í Bretlandi eftir flutning. Ekki liggja fyrir opinberar tölur um raunverulegan fjölda auðugra einstaklinga sem hafa flutt sig um set. Hins vegar telja sumir sérfræðingar líklegt að áhrifin verði talsverð – sérstaklega ef fleiri lönd bjóða skattafslætti eða öflugri fyrirsjáanleika.
Arun Advani, sérfræðingur í skattaumhverfi, segir þróunina vera í samræmi við væntingar. Hann bendir jafnframt á að Bretland gæti lært af löndum eins og Kanada og Bandaríkjunum, sem beita svonefndum „exit tax“ – skattlagningu á söluhagnað við brottflutning.
Fjármálaráðuneytið ítrekar þó að Bretland sé áfram samkeppnishæft. Þeir benda á að meginhlutfall söluhagnaðarskatts sé lægra en í nokkru öðru Evrópuríki innan G7. Jafnframt sé nýja kerfið einfaldara og sanngjarnara: „Langtímabúar eiga að greiða sína skatta í Bretlandi.“
Viðskiptaráðherrann Jonathan Reynolds bætir við að nýja kerfið sé sambærilegt við það sem tíðkast í öðrum þróuðum ríkjum og að afnám „non-dom“ kerfisins sé nauðsynleg uppfærsla á skattkerfi frá nýlendutíma.