Fyrir rúmri viku tilkynnti Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, um tolla gagnvart helstu viðskiptaríkjunum. Samkvæmt forsetatilskipuninni sem hefur þegar tekið gildi verða almennt lagðir 15% tollar á íslenskar vörur. Það kom ýmsum á óvart, þar með talið íslenskum stjórnvöldum.

„Þessi forsetatilskipun um 15% tolla kom einhliða og án fyrirvara frá bandarískum stjórnvöldum með fremur takmörkuðum rökstuðningi og bitnaði á töluverðum fjölda ríkja sem standa nú frammi fyrir hærri tollum en þau höfðu búið sig undir síðan í apríl,“ segir Hafsteinn Hauksson, aðalhagfræðingur Kviku banka.

„Ég veit ekki hvort það sé rétt að segja að það komi beinlínis á óvart, ég held að flestir séu farnir að vænta hins óvænta í samskiptum bandarískra stjórnvalda við vinaþjóðir sínar.“

Spurður hvort hann telji að þessir tollar séu komnir til að vera svarar Hafsteinn: „Jafnvel þótt einhverjum ríkjum takist að semja sig niður í lægri tollaþrep eða knýja fram undanþágur eða þessháttar, þá held ég að tollastigið í Bandaríkjunum verði varanlega hærra framvegis."

„Tollar hafa verið þungamiðjan í stjórnmálaheimspeki núverandi Bandaríkjaforseta í marga áratugi, og ég held að það sé alveg ljóst á þeim tvíhliða samningum, sem þegar hafa náðst að bandarískum stjórnvöldum er alvara með því að auka tollheimtu. Hún er ekki samningatæki, sem ríki geta vikið sér hjá með nægilegri eftirgjöf.

Tollheimtan er síðan farin að skila vaxandi tekjum fyrir bandaríska ríkið, sem festir þá enn frekar í sessi, því jafnvel þótt það yrðu stjórnarskipti að einhverjum tíma liðnum myndu ný stjórnvöld ekki geta undið ofan af tollunum nema afsala sér umtalsverðum tekjum um leið.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.