Donald Trump Bandaríkja­for­seti hefur dregið veru­lega úr þeim fresti sem hann gaf Rúss­landi til að semja um vopna­hlé í Úkraínu.

Nú hefur Rússum verið gefið 10 til 12 daga til að samþykkja vopna­hlé ella munu Bandaríkin beita harðari refsiað­gerðum, að sögn Trumps, en Financial Times greinir frá.

For­setinn greindi frá þessari af­stöðu á blaða­manna­fundi á Turn­berry-golf­velli sínum í Skot­landi í dag, þar sem hann stóð við hlið breska for­sætis­ráðherrans Keir Star­mer.

Þar sagðist hann vera að stytta 50 daga frest sem hann hafði áður gefið Vla­dimír Pútín Rúss­lands­for­seta til að bregðast við.

„Ég ætla að stytta þessa 50 daga sem ég gaf honum, það er engin ástæða til að bíða,“ sagði Trump og bætti við: „Ég vil vera sann­gjarn, en við sjáum enga fram­vindu. Við gætum náð sam­komu­lagi, en það gerist ekki svona.“

Þann 14. júlí hótaði Trump „al­var­legum“ tollum á Rúss­land og refsiað­gerðum gegn ríkjum og fyrir­tækjum sem kaupa rúss­neska olíu ef Pútín neitar að semja um vopna­hlé.

Trump gaf í skyn á mánu­dag að hann hefði litla trú á að Kreml muni ganga til samninga innan fyrri frests. „Ég held að ég viti hvernig þetta endar,“ sagði hann og lýsti von­brigðum sínum með viðbrögð Pútíns.

„Við héldum ítrekað að við hefðum náð sam­komu­lagi um vopna­hlé,“ sagði Trump og vísaði til árása Rússa. „Síðan fer Pútín út og skýtur eld­flaugum á ein­hvern stað eins og Kænugarð og drepur fjölda sak­lausra borgara. Það er ekki leiðin til friðar.“

For­setinn kvaðst munu til­kynna nýja form­lega frest­daga á mánu­dagskvöld eða þriðju­dag. Hann sagðist „mjög von­svikinn“ með rúss­neska leið­togann.