Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur dregið verulega úr þeim fresti sem hann gaf Rússlandi til að semja um vopnahlé í Úkraínu.
Nú hefur Rússum verið gefið 10 til 12 daga til að samþykkja vopnahlé ella munu Bandaríkin beita harðari refsiaðgerðum, að sögn Trumps, en Financial Times greinir frá.
Forsetinn greindi frá þessari afstöðu á blaðamannafundi á Turnberry-golfvelli sínum í Skotlandi í dag, þar sem hann stóð við hlið breska forsætisráðherrans Keir Starmer.
Þar sagðist hann vera að stytta 50 daga frest sem hann hafði áður gefið Vladimír Pútín Rússlandsforseta til að bregðast við.
„Ég ætla að stytta þessa 50 daga sem ég gaf honum, það er engin ástæða til að bíða,“ sagði Trump og bætti við: „Ég vil vera sanngjarn, en við sjáum enga framvindu. Við gætum náð samkomulagi, en það gerist ekki svona.“
Þann 14. júlí hótaði Trump „alvarlegum“ tollum á Rússland og refsiaðgerðum gegn ríkjum og fyrirtækjum sem kaupa rússneska olíu ef Pútín neitar að semja um vopnahlé.
Trump gaf í skyn á mánudag að hann hefði litla trú á að Kreml muni ganga til samninga innan fyrri frests. „Ég held að ég viti hvernig þetta endar,“ sagði hann og lýsti vonbrigðum sínum með viðbrögð Pútíns.
„Við héldum ítrekað að við hefðum náð samkomulagi um vopnahlé,“ sagði Trump og vísaði til árása Rússa. „Síðan fer Pútín út og skýtur eldflaugum á einhvern stað eins og Kænugarð og drepur fjölda saklausra borgara. Það er ekki leiðin til friðar.“
Forsetinn kvaðst munu tilkynna nýja formlega frestdaga á mánudagskvöld eða þriðjudag. Hann sagðist „mjög vonsvikinn“ með rússneska leiðtogann.