Stjórn­völd í Bandaríkjunum undir for­ystu Donalds Trump for­seta vinna nú að því að selja hluti í fast­eigna­lána­risunum Fanni­e Mae og Freddi­e Mac síðar á árinu, sam­kvæmt heimildum The Wall Street Journal.

Gert er ráð fyrir að út­boðið geti aflað um 30 milljarða Bandaríkja­dala, eða sem nemur rúm­lega 4.200 milljörðum króna, og meti fyrir­tækin saman­lagt á 500 milljarða dali eða meira.

Sam­kvæmt heimildum er verið að skoða hvort félögin verði skráð saman eða hvort þau fari í aðskilin út­boð. Sala gæti numið á bilinu 5–15% af hluta­fé þeirra.

Fanni­e Mae og Freddi­e Mac hafa verið undir stjórn og vernd bandaríska ríkisins frá fjár­mála­hruninu 2008. Óljóst er hvort þau verði áfram í svo­kallaðri ríkisum­sjá ef til út­boðs kemur.

Bill Pulte, yfir­maður Federal Housing Finance Agen­cy, hefur áður gefið í skyn að hægt væri að selja hluti meðan á ríkisum­sjón stendur, án þess að út­skýra nánar hvernig það færi fram.

For­stjórar sex stærstu bandarísku bankanna, þar á meðal Morgan Stanl­ey, JP­Morgan Chase og Gold­man Sachs, hafa nýverið fundað með Trump til að ræða málið. Fundina sátu einnig fjár­málaráðherra Scott Bes­sent, við­skiptaráðherra Howard Lutnick og Pulte frá FHFA.

Trump-liðar hófu undir­búning út­boðsins mánuðum áður en hann var endur­kjörinn, að sögn WSJ. Tals­menn út­boðsins telja að við­skiptin gætu bæði skilað fjár­munum í ríkis­sjóð og dregið úr halla­rekstri Bandaríkjanna.

Ef verðið sem rætt er um næði fram að ganga yrði þetta eitt stærsta hluta­fjárút­boð sögunnar.

Sér­fræðingar vara þó við því að undir­búningur svo flókins út­boðs taki tíma og sumir efast um að tímalínan sé raun­hæf. Áður hefur verið reynt að einka­væða félögin, þar á meðal á fyrsta kjörtíma­bili Trumps, án árangurs.

Fanni­e og Freddi­e hafa lengi notið þess að markaðurinn geri ráð fyrir ríkisábyrgð á skuld­bindingum þeirra.

Ef hún hyrfi gæti það hækkað vexti á húsnæðislánum. Trump hefur hins vegar sagt að hann vilji halda ábyrgðinni í ein­hverri mynd, þó að óljóst sé hvernig það yrði út­fært.

Bandaríska fjár­málaráðu­neytið á nú um 80% kaup­kröfu á hluta­fé beggja félaga auk for­gangs­hluta og myndi selja hluta sína í út­boðinu.