Stjórnvöld í Bandaríkjunum undir forystu Donalds Trump forseta vinna nú að því að selja hluti í fasteignalánarisunum Fannie Mae og Freddie Mac síðar á árinu, samkvæmt heimildum The Wall Street Journal.
Gert er ráð fyrir að útboðið geti aflað um 30 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur rúmlega 4.200 milljörðum króna, og meti fyrirtækin samanlagt á 500 milljarða dali eða meira.
Samkvæmt heimildum er verið að skoða hvort félögin verði skráð saman eða hvort þau fari í aðskilin útboð. Sala gæti numið á bilinu 5–15% af hlutafé þeirra.
Fannie Mae og Freddie Mac hafa verið undir stjórn og vernd bandaríska ríkisins frá fjármálahruninu 2008. Óljóst er hvort þau verði áfram í svokallaðri ríkisumsjá ef til útboðs kemur.
Bill Pulte, yfirmaður Federal Housing Finance Agency, hefur áður gefið í skyn að hægt væri að selja hluti meðan á ríkisumsjón stendur, án þess að útskýra nánar hvernig það færi fram.
Forstjórar sex stærstu bandarísku bankanna, þar á meðal Morgan Stanley, JPMorgan Chase og Goldman Sachs, hafa nýverið fundað með Trump til að ræða málið. Fundina sátu einnig fjármálaráðherra Scott Bessent, viðskiptaráðherra Howard Lutnick og Pulte frá FHFA.
Trump-liðar hófu undirbúning útboðsins mánuðum áður en hann var endurkjörinn, að sögn WSJ. Talsmenn útboðsins telja að viðskiptin gætu bæði skilað fjármunum í ríkissjóð og dregið úr hallarekstri Bandaríkjanna.
Ef verðið sem rætt er um næði fram að ganga yrði þetta eitt stærsta hlutafjárútboð sögunnar.
Sérfræðingar vara þó við því að undirbúningur svo flókins útboðs taki tíma og sumir efast um að tímalínan sé raunhæf. Áður hefur verið reynt að einkavæða félögin, þar á meðal á fyrsta kjörtímabili Trumps, án árangurs.
Fannie og Freddie hafa lengi notið þess að markaðurinn geri ráð fyrir ríkisábyrgð á skuldbindingum þeirra.
Ef hún hyrfi gæti það hækkað vexti á húsnæðislánum. Trump hefur hins vegar sagt að hann vilji halda ábyrgðinni í einhverri mynd, þó að óljóst sé hvernig það yrði útfært.
Bandaríska fjármálaráðuneytið á nú um 80% kaupkröfu á hlutafé beggja félaga auk forgangshluta og myndi selja hluta sína í útboðinu.