Íslandsbanki mun leggja til allt að 2 milljarða króna í nýju hlutafé í Orkuna ehf., í tengslum við kaup félagsins á verslunarkeðjunni Samkaup.
Þetta kemur fram í fjárfestakynningu bankans sem birt var í tengslum við uppgjör annars ársfjórðungs.
Þar segir að bankinn hafi veitt svokallaða fyrirgreiðslu um áskrift að hlutafé (e. underwriting commitment), sem þýðir að hann ábyrgist að leggja fram hluta af fjármagni ef áskrift annarra fjárfesta nægir ekki til að útboðið gangi eftir.
Með þessari skuldbindingu tryggir Íslandsbanki að Orkan hafi aðgang að því fjármagni sem þarf til að ljúka kaupunum á Samkaupum, sem rekur meðal annars verslanir undir merkjum Nettó, Kjörbúðin, Krambúðin og fleiri.
Orkan, dótturfélag Skeljar fjárfestingarfélags, undirritaði í maí kaupsamning um kaup á öllum 53,1% hlut Kaupfélags Suðurnesja í Samkaupum, sem rekur verslanir m.a. undir merkjum Nettó, fyrir 2.878 milljónir króna.
Í kauphallartilkynningu í lok var greint frá því að kaupverðið yrði greitt með afhendingu á nýju hlutafé í Orkunni sem á hálfs milljarðs króna hlut í Samkaupum vegna sameiningar Samkaupa og Atlögu (sem hét áður Heimkaup).
Samkaup er metið á 5,6 milljarða króna í viðskiptunum eða 13 krónur á hlut. Viðskiptaverð felur í sér að heildarvirði Samkaupa (e. enterprise value) sé 9,6 milljarðar króna út frá skuldastöðu í lok fyrsta ársfjórðungs.
Viðskiptin eru m.a. háð því að Orkan hafi komist að skuldbindandi samkomulagi við aðra hluthafa í Samkaupum um kaup á eignarhlut þeirra í félaginu þannig að samanlagður eignarhlutur Orkunnar og annarra aðila tengdum Skeljar nemi að lágmarki 90,01% í kjölfar viðskipta.
Verðmæti hlutabréfa Orkunnar við uppgjör viðskiptanna verður 10.669 milljónir króna. Orkan á jafnframt um 81% hlut í Lyfjavali sem er bókfærður á 1.928 milljónir króna.