Hlutabréfaverð Sýnar hafa lækkað um rúm 11% frá dagslokagengi fimmtudagsins eftir rúm 5% lækkun í viðskiptum dagsins. Gengi fjölmiðla- og fjarskiptafélagsins stendur í 28,4 krónum þegar þetta er skrifað.
Á föstudaginn sendi Síminn viðskiptavinum sínum tölvupóst þar sem þeim var boðið að kaupa áskrift að ensku úrvalsdeildinni, Meistaradeild Evrópu og Formúlunni beint af Símanum.
Áskriftarpakki Símans að íþróttaefni sem Sýn á sýningarétt var jafnframt ódýrari en hjá Sýn en einungis er þó um að ræða aðgang að línulegri dagskrá.
Bráðabirgðaákvörðun Fjarskiptastofu, sem birt var í vikunni, leiddi að þeirri niðurstöðu að
Sýn sé lögum samkvæmt skylt að verða við beiðni Símans um aðgang að línulegum sjónvarpsútsendingum. Þetta byggir á lögum um fjölmiðla og fjarskipti, sem heimila fjarskiptafyrirtækjum að óska eftir aðgangi að dreifikerfum fjölmiðlaveita í þágu neytenda.
Ákvörðunin gildir til 1. febrúar 2026 en er framlengjanleg til september sama ár, náist ekki samningar að því loknu.
Fjarskiptastofa leggur þó áherslu á að hún hafi ekki heimildir til að skylda aðgang að efnisveitum, s.s. streymisveitunni Sýn+ eða erlendum þjónustum á borð við Viaplay Total. Þær verða því ekki aðgengilegar á kerfum Símans.
Arðsemi í enska boltanum
Í árshlutauppgjöri fyrsta ársfjórðungs sagði Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Sýnar, að enski boltinn væri mikilvægt sóknarfæri sem styður við markmið Sýnar um að auka markaðshlutdeild og styrkja arðsemi félagsins á seinni hluta ársins.
Hún hefur gagnrýnt ákvörðun Fjarskiptastofu harðlega og segir Sýn telja niðurstöðuna verulega óvænta og í andstöðu við það sem telst „eðlilegar leikreglur á markaði“.
Að mati Herdísar er Fjarskiptastofa að styrkja markaðsráðandi stöðu eins fyrirtækis umfram önnur, sem er ekki til hagsbóta fyrir neytendur.
Sýn hefur kært bráðabirgðaákvörðun Fjarskiptastofu til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála.
Segja Sýn ekki verða fyrir tjóni
Síminn fagnar hins vegar ákvörðuninni. María Björk Einarsdóttir forstjóri fyrirtækisins sagði hana vera í samræmi við lög og vilja neytenda og benti á að því hefði fylgt „mikil óhagkvæmni fyrir viðskiptavini“ ef Sýn hefði fengið að halda úti sinni fyrri stefnu.
Samkvæmt Símanum greiðir félagið Sýn að fullu fyrir áskriftir samkvæmt gjaldi sem Fjarskiptastofa ákvað til bráðabirgða. Samkvæmt Símanum verður Sýn því ekki fyrir neinu tjóni vegna ákvörðunarinnar.
„Þvert á móti má ætla að Sýn selji fleiri áskriftir vegna hennar,“ segir í tilkynningunni.
Verðið sem Síminn greiðir fyrir aðgang að efninu er þó lægra en smásöluverðið, án virðisaukaskatts, á meðan hefðbundin málsmeðferð stendur yfir.
Ef lokaverð í endanlegri ákvörðun verður lægra eða hærra en þetta bráðabirgðaverð verður mismunurinn gerður upp síðar afturvirkt frá og með 1. ágúst 2025.